Kona hefur verið dæmd, í Héraðsdómi Reykjaness, til að greiða fyrrum eiginmanni sínum rúmar 480 þúsund krónur í miska- og skaðabætur að viðbættum vöxtum frá 13. september 2022 til 23. júní 2025 og með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Var hún fundin sek um að útvega sér og dreifa nektarmynd, sem sýndi getnaðarlim hans, til tveggja kvenna sem þá áttu í trúnaðarsambandi við manninn, án hans samþykkis. Jafnframt var konan dæmd til greiðslu málskostnaðar, tæpar 670 þúsund krónur í ríkissjóð.
Þá útvegaði konan sér tvær nektarmyndir af annarri konu á sama stað, sem sýndu brjóst hennar, og sendi til sömu tveggja kvenna, án samþykkis konunnar. Áður en aðalmeðferð í málinu hófst höfðu konurnar tvær gert með sér dómssátt um greiðslu 680 þúsund króna í miskabætur og vexti.
Konan var sýknuð í héraði af kröfum ákæruvalds um saknæmt athæfi í febrúar 2023 og einkaréttarlegum kröfum vísað frá dómi en Landsréttur sneri dómi héraðsdóms við sama ár og sakfelldi hana. Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar að undangengnu áfrýjunarleyfi í janúar á þessu ári í máli nr. 26/2004.
Ágreiningurinn í málinu sneri að túlkun skilyrða almennra hegningarlaga um lostugt athæfi og hvort þau hafi verið uppfyllt eður ei.
Konan byggði málsvörn sína á því að verknaðurinn hefði verið framinn i mikilli reiði og ekki hefði verið um lostugt athæfi af kynferðislegum toga að ræða. Landsréttur og Hæstiréttur töldu hins vegar að komin væri fram nægileg sönnun fyrir því að háttsemi hennar hafi verið lostug í skilningi almennra hegningarlaga.
Konunni var gerð þriggja mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing og jafnframt var héraðsdómur úrskurðaður ómerktur að því er varðar einkaréttarkröfur og þeim vísað aftur í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.