Sendi nektarmyndir: Fyrrverandi fær bætur

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Kona hef­ur verið dæmd, í Héraðsdómi Reykja­ness, til að greiða fyrr­um eig­in­manni sín­um rúm­ar 480 þúsund krón­ur í miska- og skaðabæt­ur að viðbætt­um vöxt­um frá 13. sept­em­ber 2022 til 23. júní 2025 og með drátt­ar­vöxt­um frá þeim degi til greiðslu­dags.

Var hún fund­in sek um að út­vega sér og dreifa nekt­ar­mynd, sem sýndi getnaðarlim hans, til tveggja kvenna sem þá áttu í trúnaðarsam­bandi við mann­inn, án hans samþykk­is. Jafn­framt var kon­an dæmd til greiðslu máls­kostnaðar, tæp­ar 670 þúsund krón­ur í rík­is­sjóð.

Þá út­vegaði kon­an sér tvær nekt­ar­mynd­ir af ann­arri konu á sama stað, sem sýndu brjóst henn­ar, og sendi til sömu tveggja kvenna, án samþykk­is kon­unn­ar. Áður en aðalmeðferð í mál­inu hófst höfðu kon­urn­ar tvær gert með sér dóms­sátt um greiðslu 680 þúsund króna í miska­bæt­ur og vexti.

Lostugt at­hæfi eður ei?

Kon­an var sýknuð í héraði af kröf­um ákæru­valds um sak­næmt at­hæfi í fe­brú­ar 2023 og einka­rétt­ar­leg­um kröf­um vísað frá dómi en Lands­rétt­ur sneri dómi héraðsdóms við sama ár og sak­felldi hana. Hæstirétt­ur staðfesti dóm Lands­rétt­ar að und­an­gengnu áfrýj­un­ar­leyfi í janú­ar á þessu ári í máli nr. 26/​2004.

Ágrein­ing­ur­inn í mál­inu sneri að túlk­un skil­yrða al­mennra hegn­ing­ar­laga um lostugt at­hæfi og hvort þau hafi verið upp­fyllt eður ei.

Kon­an byggði málsvörn sína á því að verknaður­inn hefði verið fram­inn i mik­illi reiði og ekki hefði verið um lostugt at­hæfi af kyn­ferðis­leg­um toga að ræða. Lands­rétt­ur og Hæstirétt­ur töldu hins veg­ar að kom­in væri fram nægi­leg sönn­un fyr­ir því að hátt­semi henn­ar hafi verið lostug í skiln­ingi al­mennra hegn­ing­ar­laga.

Kon­unni var gerð þriggja mánaða skil­orðsbund­in fang­els­is­refs­ing og jafn­framt var héraðsdóm­ur úr­sk­urðaður ómerkt­ur að því er varðar einka­rétt­ar­kröf­ur og þeim vísað aft­ur í hérað til lög­legr­ar meðferðar og dóms­álagn­ing­ar að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert