Benedikt Barðason er nýr skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra skipaði Benedikt í embættið til fimm ára, frá 1. ágúst næstkomandi.
Benedikt var valinn úr hópi þriggja umsækjanda en starfið var auglýst laust til umsóknar í apríl síðastliðnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Benedikt hefur starfað við skólann síðastliðin 25 ár sem kennari, áfangastjóri, aðstoðarskólameistari og sem settur skólameistari. Benedikt var einnig settur skólameistari í Framhaldsskólanum á Laugum síðastliðið ár.
Benedikt er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands auk kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Hann lauk grunnnámi í efnatæknifræði við Háskólann í Álaborg og er með diplómu í iðnrekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri.