Eldur kom upp í rútu sem flutti 13 og 14 ára knattspyrnumenn úr 4. flokki KA í nótt. Voru þeir á á heimleið eftir leik við Aftureldingu í Mosfellsbæ þegar í ljós kom eldur í vélarrými rútunnar á Öxnadalsheiði.
Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA segir að kviknað hafi í rafgeymi í rútunni. „Það var engin hætta á ferð,“ segir Sævar.
Hann segir að rútufyrirtækið SBA hafi brugðist mjög hratt við og sent nýja rútu um hæl.
„Bílstjórinn slökkti eldinn í rafgeyminum og það var komin rúta frá SBA um hálftíma síðar til að flytja guttana heim. Strákunum var ekkert brugðið, þeim fannst þetta bara sport. Eldurinn fór ekkert inn í rútuna. Þeir sáu þetta þegar húddið var opnað að framan,“ segir Sævar.
Að sögn hans kom viðgerðarmaður með nýjan rafgeymi og að rútunni sem bilaði hafi verið ekið stuttu síðar inn á Akureyri. Útlit sé fyrir að tjón hafi því ekki verið mikið.