Svo virðist sem glæpagengið sem plagaði gesti við gullna hringinn með vasaþjófnaði um rúmlega tveggja ára skeið sé farið af landi brott.
Þetta segir Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður Þingvalla, í samtali við mbl.is.
Engin tilfelli vasaþjófnaðar hafi komið upp á Þingvöllum né við Gullfoss og Geysi síðan í vor.
„Það var eins og það hefði komið einhver bylgja frá janúar-febrúar fram í lok mars-byrjun apríl, um átta vikna skeið, sem hafi síðan fjarað út. Við höfum allavega ekki orðið vör við það síðan þá,“ segir Einar.
Hann segir glæpagengi hafa herjar á gesti Þingvalla með vasaþjófnaði, en þau hafi einnig stundað vasaþjófnað á Gullfossi og Geysi á svipuðum tíma.
„Það var á þeim tíma sem við settum upp þessi skilti, til þess að láta þjófana vita að það er fylgst með þeim,“ segir Einar.
Að sögn Einars hafa hann og aðrir landgæsluaðilar við gullna hringinn grun um að einhver glæpagengjanna sem um er að ræða hafi fært sig úr landi.