Ný og sérhönnuð námslína, Forritun fyrir einhverft ungt fólk, verður kennd í fyrsta sinn við Opna háskólann í Háskólanum í Reykjavík í byrjun september. Um er að ræða nýtt menntunarúrræði sem miðar að því að veita einstaklingum með einhverfu jöfn tækifæri til náms, starfsþjálfunar og þátttöku í samfélaginu.
Námslínan er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri og sameinar tæknilega færni, svo sem grunnforritun og gagnaúrvinnslu, við markvissan félagslegan og persónulegan stuðning. Námið fer fram í litlum hópum þar sem lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða nálgun, sveigjanleika og að virkja styrkleika hvers og eins, að því er segir í tilkynningu.
Verkefnin eru áhugasviðstengd og hagnýt, m.a. má nefna þróun leikja og greiningu gagna. Að námi loknu fá nemendur skriflega viðurkenningu fyrir þátttöku.
Námslínan er hluti af verkefni sem nýtur stuðnings frá Einhverfusamtökunum, Vinnumálastofnun, ÖBÍ og VIRK. Hún er kennd af sérfræðingum í tölvunarfræði og studd af nemendum og fagfólki úr sálfræðideild HR.
Nemendur í klínískri sálfræði við HR munu gegna hlutverki mentora og veita nemendum námslínunnar stuðning. Bettý Ragnarsdóttir, klínískur sálfræðingur (cand.psych) og verðandi forstöðukona Sálfræðisetursins við Háskólann í Reykjavík, sem hefst starfsemi í haust, segir slíkan stuðning nauðsynlegan til að auðvelda ungu, einhverfu fólki inngöngu í háskólaumhverfið.
„Við sjáum fyrir okkur að með þessum stuðningi verði stökkið við að koma inn í háskólaumhverfið minna yfirþyrmandi. Hlutverk mentora getur verið margþætt, meðal annars að veita námslegan stuðning, aðstoða nemendur við að skipuleggja námið, kenna þeim ákveðna námstækni og þess háttar. Einnig sjáum við fyrir okkur að mentorar geti veitt hvatningu og hjálpað nemendum að takast á við kvíða og óöryggi sem tengist námi. Og að lokum að þeir geti verið brú í samskiptum við kennara eða aðra aðila innan háskólans,“ segir Bettý.
Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur í atvinnutækifærum fatlaðs fólks hjá Vinnumálastofnun, fagnar framtakinu og segir það mikilvægt skref í átt að aukinni samfélagsþátttöku. „Það er ótrúlega gleðilegt og mikilvægt að einhverfu fólki bjóðist nám sem tekur sérstaklega mið af þeirra þörfum. Námið er mikilvægur lykill að frekari þátttöku í samfélaginu. Að Opni háskólinn taki slíka ákvörðun er gríðarlega mikilvægt skref og til mikillar eftirbreytni,“ segir Sara Dögg.
Óskar Guðmundsson, varamaður í stjórn Einhverfusamtakanna, tekur í sama streng. „Einhverfusamtökin eru mjög ánægð með það frumkvöðlastarf sem Opni háskólinn og Háskólinn í Reykjavík eru að vinna og endurspeglast í þessu metnaðarfulla námskeiði. Námið er nýr og mikilvægur valkostur fyrir einhverfa einstaklinga á öllum aldri.“