Formenn ríkisstjórnarflokkanna skrifuðu og sendu frá sér sameiginlega fréttatilkynningu í morgun um öryggis- og varnarmál.
Kemur þar meðal annars fram að markmiðið sé að árið 2035 muni Ísland verja 1,5% af vergri landsframleiðslu í öryggis- og varnarmál. Gróflega áætlað séu framlögin nú um helmingi minni í hlutfalli við landsframleiðslu.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin verði áfram grunnstoðir í utanríkisstefnu Íslands.
„Á sviði áfallaþols búum við yfir þekkingu og kunnáttu. Þar eru almannavarnir og björgunarsveitirnar okkar í broddi fylkingar. En einnig er þörf á að efla Landhelgisgæslu Íslands, eftirlit á landamærum, netöryggi, löggæslu og aðra þætti í réttarvörslukerfinu. Þá er nauðsynlegt að auka áfallaþol með því að byggja upp og verja innviði sem snúa að orku, fjarskiptum og samgöngum,“ segir í tilkynningunni.