Íbúar og landeigendur í nágrenni Engjaholts í landi Fells í Bláskógabyggð mótmæla nú fyrirhuguðum breytingum á gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og deiliskipulagstillögu fyrir svæðið. Áformin gera ráð fyrir að breyta landbúnaðarsvæði í verslunar- og þjónustusvæði með umfangsmiklum framkvæmdum.
Tillögurnar fela meðal annars í sér byggingu allt að 100 smáhýsa eða gistihúsa, þriggja til fjögurra hæða hótels með rými fyrir allt að 200 gesti, baðlauga og 15–20 húsa til útleigu eða sem íbúðar- og/eða starfsmannahús.
Samtals getur byggingarmagnið numið allt að 4.000 fermetrum. Gert er ráð fyrir að daglegur fjöldi gesta verði um 400 manns en talið er að hann geti farið yfir 1.000 manns á annasömum dögum.
Íbúar í nágrenninu telja að framkvæmdunum fylgi röskun á náttúru og vistkerfi svæðisins. Þá er bent á að svæðið sé þegar undir miklu álagi vegna mikillar umferðar og vinsælda ferðamannastaða eins og Gullfoss og Geysis.
Í kjölfarið hefur verið settur upp undirskriftarlisti á Ísland.is þar sem þess er krafist að þróun Engjaholts byggist á sjálfbærni, náttúru- og menningarvernd og mannúðlegum sjónarmiðum en ekki á hugmyndum um skammtímahagnað sem geti raskað náttúru og samfélagi.
Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, segir í samtali við mbl.is að fyrirhugaður íbúafundur vegna málsins verði haldinn mánudaginn 30. júní kl. 16 í Aratungu í Reykholti.
„Þar mun landeigandinn, sem er að vinna skipulagið, koma og kynna málið á opnum fundi,“ segir hann.
Skipulagsferlið er enn í gangi og bæði aðalskipulagsbreytingin og deiliskipulagið eru í auglýsingu. Upphaflegur athugasemdafrestur rennur út 27. júní en vegna fjölmargra viðbragða hafi verið óskað eftir framlengingu. „Við auglýsum sem sagt lengdan athugasemdafrest og samhliða því auglýsum við líka íbúafundinn.“
Aðspurður um hvort fyrri athugasemdir hafi leitt til breytinga svarar Vigfús: „Það getur alveg gerst að eitthvað breytist í tillögunni, til dæmis að eitthvað sé lækkað eða byggingarmagn minnkað. En síðan eftir auglýsinguna getur tillagan breyst enn frekar.“
„Skipulagsferlið gæti alveg orðið til þess að framkvæmdin verði ekki. Það gæti alveg gerst en til þess er ferlið,“ segir Vigfús.
Hann segir ekki hægt að segja til um hvenær framkvæmdir gætu hafist: „Því verður ekki hægt að svara í rauninni um hvenær nákvæmlega einhverjar framkvæmdir geta hafist þarna fyrr en skipulagsferlinu er lokið.“
Að lokum bendir hann á að tilkynningarnar um íbúafundinn hafi verið sendar út í 1,5 km radíus frá svæðinu: „Við sendum öllum sérstaklega tilkynningu um að það sé þarna þessi íbúafundur. Þannig að ég vonast til að það fari ekki fram hjá neinum.“
Leiðrétt:
Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur og er nú til 14. júlí.