Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir útlit fyrir áframhaldandi milt veður með hægum vindum og vætu af og til yfir helgina líkt og verið hefur síðustu daga.
Á morgun, föstudag, er spáð suðlægum breytilegum áttum og fremur hægum vindi. Skúrir verða víða, einkum síðdegis. Hiti verður á bilinu 8 til 17 stig, svalast norðvestantil seinni part dags, en víða hlýtt.
Á laugardag snýst í norðlæga átt og verður dálítil væta um landið allt. Á vestanverðu landinu verður þó úrkomuminna og bjart með köflum. Þar getur hiti náð 15 til 17 stigum, með líkum á síðdegisskúrum. Á norðaustanverðu landinu verður heldur svalara en verið hefur.
Á sunnudag er áfram búist við fremur hægri norðlægri eða breytilegri átt og vætu víðast hvar, einkum á sunnanverðu landinu. Hitinn verður yfirleitt á bilinu 7 til 15 stig, og líkur á öflugum síðdegisskúrum.
Að sögn veðurfræðings sker enginn landshluti sig sérstaklega úr hvað varðar veðurlag, þar sem útlitið næstu daga er mjög svipað og það hefur verið að undanförnu, milt veður með dálítilli vætu og lítilli vindátt.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands kemur fram að lægð við suðurströndina sé að fikra sig inn á land um þessar mundir. Áttin er austlæg á norðan- og austanverðu landinu, 5-13 m/s en hægari vindur sunnan- og vestanlands. Skýjað með köflum og víða skúrir, og getur verið talsverð úrkoma á stöku stað.
Hiti var víða á bilinu 8 til 15 stig í dag, þegar pistillinn var skrifaður hafði hiti mest farið í 16 stig á Önundarhorni.
Á morgun er útlit fyrir fremur hæga suðlæga eða breytilega átt og áfram einhverjar skúraleiðingar, einkum síðdegis. Hlýnar heldur.