This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að sér finnist hann hafa verið að fylgjast með „hægfara lestarslysi“ þegar hann horfir til vandræða ríkisstjórnarinnar með mál sín á Alþingi. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur undir þetta, augljóst sé að ríkisstjórnin hafi færst of mikið í fang.
Þetta kemur fram í viðtali Dagmála við þá félaga, sem báðir búa yfir mikilli þingreynslu og hafa báðir lengi gegnt ráðherraembættum.
„Þau ætluðu að gera alltof mikið á stuttu þingi, koma inn með alltof stór mál og héldu áfram að dæla inn málum eftir að boxið var orðið fullt,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að nú sé komið að lokum júní og stjórnin aðeins búin með um 20 mál og 9 þingsályktanir, en enn séu 80 önnur mál eftir.
„Það er öllum augljóst að því lengur sem þingið mallar svona, því færri mál klárast.“
Guðlaugur Þór segir mistök ríkisstjórnarinnar felast í því að setja fram hundrað mál, sem öll eigi að leggja áherslu á með fyrirsjáanlegum afleiðingum.
„Hvaða markmið er það?“ spyr hann um fjölda framlagðra mála.
„Mér finnst þetta skrýtið, því það er reynslumikið fólk í ríkisstjórninni. Þau gefa línuna.“
Hann skilur ekki í því að ríkisstjórnin hafi amast við að minnihlutinn leggist vel yfir mál. Það sé einmitt styrkur í því að þingið fari yfir málin með gagnrýnum hætti. Það þekki hann vel frá sinni ráðherratíð, að skili betri lögum.
Það er alltaf hagur ríkisstjórnar að þingið fari vel í gegnum málið, þannig að ef mönnum yfirsást eitthvað í ráðuneytinu, þá er það þingið sem lagar það.“