Kristján Ingi Kjartansson, tæplega tvítugur Eyjamaður, upplifði mikla vanlíðan um tíma sem hann byrgði inni. Honum fannst tilfinningarnar ekki eiga rétt á sér og fannst hann vera hálfgerður aumingi, enda voru aðrir sem glímdu við stærri vandamál en hann.
Fyrir ári síðan var hann kominn á þann stað að sjálfsvígshugsanir sóttu að honum og hann sá orðið aðeins eina leið út. Þá hringdi hann í örlagaríkt símtal í hjálparsíma Píeta-samtakanna, þar sem hann fékk þá hjálp sem hann þurfti, og öðlaðist kjark til að ræða líðan síðan.
Hann ætlar nú að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta skipti og safna áheitum fyrir Píeta-samtökin. Þegar þetta er skrifað er hann með efstu hlaupurum í áheitasöfnuninni, búinn að safna 380 þúsund krónum, en það tók hann aðeins tæpa tvo sólarhringa að komast upp í 365 þúsund.
„Mér finnst ég skulda Píeta-samtökunum svo mikið. Ef það væri ekki fyrir þau og þeirra hjálp þá væri ég líklega ekki hér í dag,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
„Ég hringi í þau þegar ég er að fara að taka mitt eigið líf,“ heldur hann áfram, en Kristján hringdi í hjálparsímann, sem er opin allan sólarhringinn, og hitti þar á konu sem hafði verið í svipuðum sporum og hann.
„Það hjálpaði mér rosa mikið að tala við einhvern sem hefur verið í svipuðum aðstæðum og hefur liðið svona. Ég var bara að taka síðasta sénsinn með því að prófa að hringja þangað og skoða hvort ég vildi í raun gera þetta.“
Þetta símtal skipti sköpum og í framhaldinu tókst Kristjáni að opna sig gagnvart fjölskyldu og vinum með sína vanlíðan.
„Eftir þetta samtal gat ég farið að tala við fólkið í kringum mig um þetta. Það verður allt miklu auðveldara um leið og maður er búinn að tala við fólkið sem manni þykir vænt um. Annars er allt svo flókið.“
Með aðstoð frá Píeta-samtökunum öðlaðist hann kjark til að geta talað opinskátt um sína vanlíðan og í kjölfarið miðlað sinni reynslu áfram.
„Ég fattaði að ég þyrfti að tala við fólkið mitt. Ég hafði ekki gert það.“
Kristjáni hafi liðið illa um tíma, en hafði þó aldrei áður verið á jafn slæmum stað og hann var þegar hann hringdi símtalið örlagaríka í Píeta-samtökin.
„Þetta byrjar lítið en þegar maður heldur svona inni í sér og gerir ekkert þá eykst þetta og á endanum fer maður á þann stað sem ég var á þegar ég hringdi í þau,“ útskýrir hann.
„Mér leið eins og aumingja að líða svona, því ég vissi að fólk var að glíma við miklu verri hluti og með stærri vandamál. Það þurfa bara nokkrir hlutir að klikka þá getur maður endað á vondum stað og þegar maður segir ekki frá þá verður allt verra.“
Hann telur að þetta séu algengar tilfinningar hjá þeim sem líður illa, að finnast vanlíðanin einfaldlega aumingjaskapur, sérstaklega ungir drengir sem eigi erfiðara með að tjá tilfinningar sínar.
Kristján er mjög þakklátur fyrir þá aðstoð sem Píeta-samtökin hafa veitt honum og vill gefa af sér til baka. Áhugi hans á hlaupum hefur aukist síðustu misseri og hann vildi setja sér það markmið að hlaupa hálfmaraþon.
Það var því ekki erfið ákvörðun að skrá sig til leiks í Reykjavíkurmaraþoninu, þótt hann hafi aldrei hlaupið svo langt áður.
„Þetta eru rosa flott samtök sem hafa unnið svo mikilvægt verk,“ segir Kristján, en hann hefur fengið mikil viðbrögð eftir að hann greindi frá því að hann ætlaði að hlaupa fyrir samtökin, sérstaklega frá ungu fólki á svipuðum aldri og hann sjálfur.
Kristján er línumaður í handbolta og segist því ekki vera mjög sterkur þegar kemur að hlaupum.
„En mér finnst gaman að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður og þetta verður mikil áskorun fyrir mig.“
Kristján setti sér það markmið að safna 500 þúsund krónum fyrir samtökin, en það tók hann aðeins tæpa tvo sólarhringa að komast upp í 365 þúsund. Hann bjóst alls ekki við að söfnunin myndi ganga svona vel og er að íhuga að hækka markmiðið upp í eina milljón.
„Þetta er aðallega samfélagið í Vestmannaeyjum, það standa allir saman þegar kemur að einhverju vandamálum. Ég er mjög þakklátur fyrir að búa hér.“
Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á: Píeta samtökin, s. 552-2218, Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið 1717.is, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is. Í neyð hringið í 112. Varðandi stuðning eftir missi í sjálfsvígi er bent á Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is, Sorgarmiðstöð, s. 551-4141, og sorgarmidstod@sorgarmidstod.is, síma Píeta samtakanna, 552-2218. Í neyð hringið í 112.