Sálfræðingar sem starfa hjá ríkinu hafa samþykkt kjarasamning Sálfræðingafélags Íslands við ríkið.
Samningurinn gildir frá 1. apríl 2024 til og með 31. mars 2028, að því er segir á vefsíðu félagsins.
315 sálfræðingar voru á kjörskrá og 217 greiddu atkvæði. Af þeim sem greiddu atkvæði sögðu 182 (83,9%) já. Nei sögðu 35 (16,1%).
Um mánuður er liðinn síðan sálfræðingarnir höfnuðu í atkvæðagreiðslu kjarasamningi við ríkið.
Nýi samningurinn tekur gildi strax og verða laun því greidd út samkvæmt honum um næstu mánaðamót. Afturvirkar launahækkanir vegna launatöflubreytinga koma einnig til útborgunar þá.