Skemmdarverk var unnið á listaverkinu Samstarfi, eða Partnership, við Sæbraut í námunda við Höfða í Reykjavík.
Óvíst er nákvæmlega hvenær það var gert en Listasafn Reykjavíkur fékk veður af skemmdarverkinu seint í gærkvöldi. Verkið er nú útatað rauðri málningu og fiðri.
Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar hjá Listasafni Reykjavíkur, segir að listaverkið sé ekki skemmt, en það þurfi vitanlega að þrífa það. Til stóð að fara í þrifin í morgun.
„Þetta eru bara þrif, sem betur fer. Maður er aldrei glaður þegar svona gerist en kannski er það einhver hugsun að vera ekki með einhverjar varanlegar skemmdir. Þetta er þannig málning, þetta er bara akrílmálning og trélím. Þetta næst af með heitu vatni myndi ég halda,“ segir Sigurður Trausti í samtali við mbl.is.
Höggmyndin Partnership er eftir Pétur Bjarnason og var afhjúpuð árið 1991. Voru það bandarísku sendiherrahjónin Charles E Cobb Jr. og Sue Cobb sem færðu Reykjavíkurborg verkið í tilefni 50 ára formlegs stjórnmálasambands Íslands og Bandaríkjanna.
Samskipti leiðtoga Íslands og Bandaríkjanna voru áberandi í fréttum í gær þegar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hittu Donald Trump Bandaríkjaforseta á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Hollandi.
Þorgerður Katrín sagði Trump mega „eiga það“ að hann væri „heillandi“.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, skrifaði á samfélagsmiðlum í kjölfarið að ekkert væri „heillandi“ við að ógna lýðræðinu. „Það er alvarlegt og við mætum því með reisn og sjálfsvirðingu.“