Sérsveitin aðstoðaði lögregluna á Suðurnesjum í aðgerðum í Sandgerði í heimhúsi fyrr í dag vegna manns sem sagður var bera eggvopn. Þrír aðrir voru í húsinu en þá sakaði ekki.
Að sögn Margrétar Kristínar Pálsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum, var talsverður viðbúnaður vegna stöðunnar sem upp kom. Maðurinn var handtekinn í aðgerðunum.
„Í fyrstu lét maðurinn sér ekki segjast, en hann var svo yfirbugaður eftir dágóða stund og færður á lögreglustöð. Þrír aðrir sem voru á vettvangi sakaði ekki. Lagt var hald á hníf á vettvangi, en ekki er vitað hvað manninum gekk til með þessari háttsemi,“ segir Margrét í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.