Rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir byrjaði sinn rithöfundaferil með ljóðabók, en sneri sér síðan að barnabókum og sló í gegn með Nærbuxnaverksmiðjunni og framhaldið þeirrar bókar. Fyrir bókina Kollhnís, sem kom út eftir að nærbuxnaröðinni var lokið, fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2022 og bókin var tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ári síðar.
Í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins segir Arndís að hún hafi alltaf haft mikla tjáningarþörf og að hún hafi lesið mikið sem barn sem kveikt hafi hjá henni á hugmynd um að hún gæti kannski skrifað bækur sjálf.
„Ég hætti aldrei að lesa barnabækur, kannski er það af því að mér finnst alltaf að ég sé barn og ég tengi mjög mikið við háskann sem fylgir því að vera barn: Maður kann ekki reglurnar, er svolítið berskjaldaður gagnvart heiminum, og það getur hvað sem er gerst. Mér finnst það mjög frjór staður til að vera á hvað varðar alla sköpun og því mjög náttúrulegt að byrja þar.
Kollhnís er bók sem að ég var mjög lengi að skrifa og þykir mjög vænt um. Hún fjallar líka um þetta háskalega skeið í lífinu þegar að það er að renna upp fyrir manni hvað það er að vera fullorðinn.
Maður fer að horfa á foreldra sína, kannski ekki sem jafningja, en eitthvað nær því, og þá hellast yfir mann öll vandamálin sem geta fylgt því að vera fullorðinn. Svo já, það er bók sem mér þótti mjög vænt um og mér finnst mjög vænt um. Krakkar tengja við hana, ekki bara fullorðið fólk, af því að krakkar, þegar ég var barn þá fannst mér svo gaman að lesa bækur sem ég upplifði að það væri verið að sýna mér á dýptina í samfélaginu. Þegar var verið að sýna mér gallað fólk. Þegar var verið að sýna mér eitthvað sem var flókið.“