Óskar J. Sigurðsson, fyrrverandi vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, lést 25. júní sl. á heimili sínu á Selfossi, 87 ára að aldri.
Óskar fæddist á Stórhöfða 19. nóvember 1937. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Valdimar Jónathansson vitavörður og veðurathugunarmaður og Björg Sveinsdóttir.
Óskar var sjálfmenntaður náttúrufræðingur, annaðist veðurathuganir, fuglamerkingar og umhverfismælingar áratugum saman, var afar minnugur og athugull og hélt nákvæmt bókhald um náttúruna.
Óskar fór snemma að aðstoða Sigurð föður sinn við veðurathuganir. Fyrsta verkefni Óskars við veðurathuganirnar var að athuga veðrið klukkan þrjú á nóttunni. Hann tók formlega við starfi vitavarðar á Stórhöfða árið 1965 og gegndi því til ársins 2007 en sendi áfram veðurskeyti til 2014 þegar hann flutti á Selfoss þar sem hann bjó síðan.
Óskar merkti fyrsta fuglinn, lunda, 5. maí 1953 og hélt þeim merkingum áfram til ársins 2014. Óskar merkti alls 91.695 fugla af um 40 tegundum og hélt nákvæmt bókhald yfir merkingarnar, fjölda fugla, tegundir og númer merkja. Skráð var í Heimsmetabók Guinness 1997 að enginn einstaklingur í heiminum hefði merkt fleiri fugla en Óskar, sem þá hafði merkt 65.200 fugla.
Óskar hlaut riddarakross íslensku fálkaorðunnar árið 1997 fyrir störf í þágu fuglarannsókna. Árið 2012 var hann tilnefndur Eyjamaður ársins fyrir framlag sitt til umhverfismála og árið 2018 fékk hann heiðursverðlaun Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir langt og óeigingjarnt starf við fuglamerkingar og markvert framlag til fuglarannsókna.
Þá safnaði Óskar saman gögnum fyrir haf- og veðurstofu Bandaríkjanna, NOOA, í 15 ár og var 2007 heiðraður sem hetja umhverfisins fyrir mælingar gróðurhúsalofttegunda á Stórhöfða.
Sambýliskona Óskars var Valgerður Benediktsdóttir húsfreyja. Þau slitu samvistir. Sonur þeirra var Pálmi Freyr veðurathugunarmaður, hann lést 2019.