Vegagerðin hefur lagt það til við skipulagsráð Akureyrarbæjar að hjörtun í rauðu götuljósunum verði fjarlægð. Bæjarstjóri Akureyrar kveðst ekki vita hvað Vegagerðinni gangi til og vonar að bæjaryfirvöld hafni beiðni Vegagerðarinnar.
Þetta kemur fram í færslu Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, á Facebook.
„Hjörtun í rauðu umferðarljósunum eru eitt af einkennismerkjum Akureyrar, stór þáttur í ímynd bæjarins sem segir á svo táknrænan og fallegan hátt að hér viljum við taka á móti öllum með hlýju og kærleika,“ skrifar Ásthildur.
Í rökstuðningi Vegagerðarinnar er því haldið fram að stofnuninni hafi borist ábendingar um að hjörtun ógni umferðaröryggi og að ljóst sé að hjartalögunin í ljósunum standist hvorki kröfur um umferðarmerki né umferðaröryggi.
Þá telur Vegagerðin að hjartalöguðu ljósin geti einnig truflað ökumenn við akstur.
„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá bara skil ég ekki hvað Vegagerðinni gengur til og er ekki í vafa um að bæjaryfirvöld á Akureyri munu hafna því alfarið að fjarlægja hjörtun. Þau voru sett í umferðarljósin sumarið 2008 þannig að Vegagerðin hefur haft 17 ár til að fjalla um „þá ógn“ sem af þeim stafar,“ skrifar Ásthildur.
Hún biðlar til fólks að brosa með hjartanu og verja tímanum í eitthvað „þarfara en að vera með leiðindi út í hjörtun okkar.“