Opnir upplýsingafundir um viðbragðsáætlun fyrir mögulegt eldgos undir Mýrdalsjökli voru haldnir á Vík í Mýrdal í gærkvöldi. Sá fyrri á ensku og sá seinni á íslensku.
Björn Ingi Jónsson, sviðsstjóri almannavarna hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir fundina hafa gengið mjög vel og að almenningur hefði tekið virkan þátt.
Hann segir að vel hefði verið mætt á báða fundina, eða um 30 manns á enskumælandi fundinn og hátt í 100 á þann íslenskumælandi.
Vinna við endurskoðun á viðbragðsáætlun frá árinu 2017 vegna eldgoss undir Mýrdalsjökli, eða í Kötlu, var kynnt íbúum á svæðinu og fóru Magnús Tumi Guðmundsson frá Jarðvísindastofnun og Bergur Einarsson frá Veðurstofu Íslands með framsögur.
„Þeir fóru annars vegar yfir söguna og hins vegar yfir mælikerfi og áhættumat og ýmislegt sem Veðurstofan er ábyrg fyrir,“ segir Björn.
„Svo fór ég yfir drögin að áætluninni eins og þau líta út núna. Hún byggir að stórum hluta á áætluninni sem er í gildi, sem er frá 2017, en ákveðnir þættir hafa verið uppfærðir í tengslum við það sem hefur verið að eiga sér stað á undanförnum árum – íbúasamsetningu, fjölgun íbúa, fjölgun ferðamanna og fleiri ferðamannastaði nær jöklinum.“
Að sögn Björns þurfti að tækla þessar breytingar í nýju drögunum og útskýra hvernig gæti þurft að grípa inn í ef fólk skyldi verða vart við óróa á svæðum nær jöklinum.
„Ef það er yfirvofandi eldgos með hugsanlegu flóði eða öskufalli, þá gæti þurft að stýra umferð inn á ákveðin svæði eftir aðstæðum, vindátt og hvar upptökin eru, hvar afleiðingarnar koma fram.“
Í framhaldi af framsögum var um klukkutími gefinn í spurningar og tók almenningur þar virkan þátt, að sögn Björns.