Allir nefndarmenn minnihlutans í atvinnuveganefnd gera alvarlegar athugasemdir við að frumvörp um strandveiðar og veiðar á grásleppu hafi verið afgreidd út úr nefndinni á fundi hennar í gærmorgun.
Jón Gunnarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og 2. varaformaður nefndarinnar, segir þessi vinnubrögð fordæmalaus og málin engan veginn tæk til umræðu í þingsal.
„Þessi mál hafa fengið mjög litla meðferð í nefndinni. Til að mynda voru einungis fjórir eða fimm gestir af um 20 umsagnaraðilum um frumvörpin boðaðir á fund hjá nefndinni. Það er alvarlegt þegar aðilar sem senda inn umsagnir um þingmál, og í mörgum tilvikum að beiðni nefndarinnar sjálfrar, eru ekki teknir til viðtals þar sem meirihluti nefndarinnar telur að ekki gefist tími til þess,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að lykilstofnanir í strandveiðimálinu, eins og Byggðastofnun og Hafrannsóknastofnun, hafi hvor um sig fengið einungis 15 mínútur til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þá hafi ekki allir nefndarmenn fengið tækifæri til að spyrja fulltrúa stofnananna lykilspurninga um málið. Þá hafi hvorug stofnananna verið fengin til viðtals vegna grásleppumálsins.
„Þetta eru lykilstofnanir þegar kemur að byggðaáhrifum annars vegar og áhrifum á fiskistofna hins vegar. Síðan voru margir aðrir sem fengu ekki tækifæri til að koma á fund nefndarinnar. Það er ekkert lýðræðislegt við það að umsagnaraðilar fái ekki að koma á nefndarfund og færa rök fyrir umsögnum sínum og svara spurningum þingmanna. Það er hluti af hinu lýðræðislega ferli og því er verulega ábótavant í störfum þingsins núna,“ segir hann.
Jón bendir á að sama sé upp á teningnum í veiðigjaldamálinu og það sé heldur ekki tækt til afgreiðslu á þingi.
Nauðsynlegt sé að vinna málin sem varða sjávarútveginn betur og réttast sé að fresta umfjöllun um þau fram til hausts.
„Að mati minnihluta nefndarinnar eiga þessi vinnubrögð sér ekki fordæmi í nefndavinnu Alþingis og í sjálfu sér er það alvarlegt og ekki lýðræðislegt þegar aðilar sem nefndin sjálf hefur óskað eftir að sendi inn umsögn fá ekki tækifæri fyrir nefndinni til að skýra mál sitt,“ segir í bókun minnihluta atvinnuveganefndar sem allir fulltrúar hans stóðu að.
Fulltrúar minnihlutans í atvinnuveganefnd eru Jón Gunnarsson og Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki og Bergþór Ólason Miðflokki, en áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd er Þórarinn Ingi Pétursson Framsóknarflokki.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.