Mannanafnanefnd hefur með úrskurðum sínum frá 24. júní veitt heimild fyrir löglegum burði eiginnafnanna Anóra, Link, Eugenía, Sesselíus, Vava, Baggio, Star, Kareem, Míló, Celina og Bíi.
Hafnaði nefndin hins vegar millinafninu Hó og rökstuddi með svofelldum orðum:
Millinafnið Hó er dregið af íslenskum orðstofni, hó, en nefndin telur að nafn sem leitt er af upphrópun eins og hó, hæ, hí, ha og jæja geti orðið nafnbera til ama.
Hafa ber í huga að samþykki mannanafnanefnd millinafn, færist það á skrá yfir slík nöfn. Það kann að leiða til þess að börn geti hlotið það, en mikilvægir hagsmunir barna eru að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi sbr. greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn.
Bent skal á að fullveðja einstaklingur sem hefur í hyggju að kjósa sér nafn af einhverjum ástæðum sem að öllu jöfnu kynni að valda barni sem nafnhafa ama, getur í daglegu lífi sínu viðhaft það nafn þótt það fái ekki opinbera skráningu hjá stjórnvöldum og færist ekki á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd hlutast ekki til um gælunöfn, listræn nöfn eða önnur þau nöfn eða nefni sem kunna að tíðkast í daglegu lífi utan opinberrar skráningar.
Rökstuddi nefndin blessun sína yfir nafninu Baggio með því að það tæki eignarfallsendingunni Baggios og væri ekki líklegt til að valda nafnbera ama. Það væri hins vegar ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, meðal annars þar sem samstafan -io kæmi ekki fyrir í ósamsettum orðum íslenskum. Væri því aðeins hægt að samþykkja ritháttinn að því gefnu að hefð teldist fyrir honum.
Vísaði nefndin í mannanafnalög og eigin vinnureglur þar sem fjórða grein reglnanna taldist réttlæta Baggio. Hljómar hún svo:
Þrátt fyrir að ekki sé hefð fyrir tökunafni á grundvelli framanritaðs telst ritháttur þess hefðbundinn sé hann gjaldgengur í veitimáli og nafnið ekki ritháttarafbrigði rótgróins nafns. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z. Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.
Taldist nafnið þar með gjaldgengt sem ítalskt tökunafn með gjaldgengan rithátt í veitimálinu, ítölsku, og sagði í niðurlagi úrskurðar:
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands ber enginn einstaklingur nafnið Baggio í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglna mannanafnanefndar varðandi hefð, sbr. 2. gr. þeirra, og nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Því er ekki hefð fyrir nafninu á grundvelli 1. gr. vinnulagsreglnanna. Nafnið er aftur á móti ítalskt tökunafn og þessi ritháttur þess gjaldgengur í veitimálinu. Telur mannanafnanefnd því hefð fyrir rithætti nafnsins á grundvelli 4. gr. reglnanna.