Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því að fyrr í þessum mánuði hafi verið brotist inn á vinnusvæði á fjórum stöðum á Akureyri og stolið þaðan miklu magni af alls konar verkfærum. Lögreglan segir að málin séu í rannsókn hjá en henni hefur ekki enn tekist að hafa hendur í hári þjófanna.
„Þetta er auðvitað algjörlega óþolandi því burtséð frá verðmætinu á viðkomandi verkfærum setur þetta starfsemina á vinnustöðunum að einhverju leyti úr skorðum. Tjón framkvæmdaaðila er því mikið,“ segir lögreglan í færslu sem hún birti á Facebook.
„Við viljum í þessu samhengi beina því til allra sem starfa á byggingarsvæðum, viðhaldssvæðum eða öðrum sambærilegum vinnustöðum að huga sérstaklega að öruggri vörslu eigna sinna. Mikilvægt er að verkfæri og önnur verðmæti séu tryggilega geymd utan vinnutíma og að gripið sé til viðeigandi öryggisráðstafana, t.d. með myndavélaeftirliti. Með þessu getum við dregið úr eignatjóni og aukið öryggi á vinnusvæðum,“ segir lögreglan enn fremur.