Eigendur höfundarréttar að Múmínálfunum, hugarfóstri finnsk-sænsku skáldkonunnar Tove Jansson, hyggjast lögsækja Skógræktarfélag Eyjafjarðar á þeirri forsendu að Múmínlundurinn í Kjarnaskógi við Akureyri teljist höfundarréttarbrot.
Segir þar að hafist hafi verið handa við lundinn fyrr í júní og tekið til við að útbúa Múmínskóg og Múmínturn á svæðinu. Sagði skógræktarfélagið í tilkynningu um miðjan mánuðinn:
Á einungis einni viku reistu þeir Múmínkastalann fyrir Míu sem er afar vel að verki staðið en verkinu er þó hvergi nærri lokið, öryggissvæði og umgjörð öll er næsta mál á dagskrá. Undirbúningur hefur staðið um hríð. Starfsfólk okkar, verktakar og nemendur Menntaskóla Akureyrar hafa komið þar að málum og gaman að sjá gamla, kræklótta síberíulerkilundinn á Kjarnavelli öðlast nýtt líf sem Múmínskógur, sjálfstæð eining innan Kjarnaskógar sem hýsa mun fjölskyldumeðlimi Míu auk annara sögupersóna þess ágæta ævintýris eins og Snorksins og Snorksstelpunnar, Morrans, Hemúlsins, Hattífattanna og svo framvegis.
Kveðst DV hafa heimildir um að finnska fyrirtækinu Moomin Characters Oy Ltd. hafi verið gert viðvart um framkvæmdina á Akureyri og þær upplýsingar fengist frá starfsmanni þar að fyrirtækinu hefði ekki verið tilkynnt um framkvæmdina.
Ræðir DV við Ingólf Jóhannsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Akureyrar, sem kvaðst undrast yfir að sækja þyrfti um leyfi fyrir framkvæmd á borð við Múmínlundinn. Vitnar DV í framkvæmdastjórann svofelldum orðum:
„En fyrstu viðbrögð eru að þetta eru leiktæki sem erlent fyrirtæki framleiðir og selur og þessi leiktæki, sem eru CE-vottuð, eru í notkun úti um öll Norðurlönd, þar sem fólk er að setja þetta upp. Við höfum kannski haft í huga að gera þessu hærra undir höfði og auglýsa þetta sem Múmíngarð. Ég hef í sjálfu sér ekki heimildir fyrir því að það sé löglegt og leyfilegt. Varðandi leiksvæðið sem slíkt þá á ég erfitt með að trúa því að þetta sé ólöglegt.“
Roleff Kråkström, forstjóri Moomin Characters, svaraði fyrirspurn DV um málið og sagði þar um blygðunarlaust höfundarréttarbrot að ræða og væru lögmenn fyrirtækisins að undirbúa málsókn á hendur skógræktarfélaginu.