„Við höldum þessa 95 ára afmælishátíð hér á Þingvöllum sem er mjög táknrænt fyrir SUS,“ segir Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, í samtali við mbl.is. Tilefnið er 95 ára afmæli SUS sem telur hátt í 15.000 félaga á aldrinum 15 til 35 ára sem eru þau aldursmörk sem félagið setur þeim er kallast geta ungir sjálfstæðismenn.
Staðsetning afmælishátíðarinnar má réttilega kallast táknræn þar sem sambandið var stofnað á Þingvöllum á Alþingishátíðinni 1930 þar sem margt var um dýrðir, efnt var til ljóðasamkeppni fyrir hátíðina og hlutu þrjú skáld viðurkenningu sérstakrar dómnefndar sem skipuð var til að velja sigurvegarana – þá Jóhannes úr Kötlum, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og Einar Benediktsson.
Ekki er um ljóðasamkeppni að ræða á 95 ára afmælinu, en þó margt um dýrðirnar að sögn formannsins. Ekki ómerkari maður en Magnús Kjartan Eyjólfsson úr Stuðlabandinu mun annast tónlistina og leysir þar með sjálfan Davíð frá Fagraskógi og önnur skáld Alþingishátíðarinnar af hólmi 95 árum síðar.
„Sambandið var stofnað hér á Þingvöllum í Hvannagjá og við höldum afmælið þar,“ segir Viktor. „Við erum heppin að þetta lendir á föstudegi og höldum því útilegu hér og erum búin að tjalda. Hér er að hrannast inn hellingur af fólki. Við erum með Friðrik Sophusson sem er elsti núlifandi formaður SUS, Guðni Th. [Jóhannesson] sem er landvörður hér kynnir hann inn og svo held ég sjálfur ávarp,“ heldur hann áfram.
Að loknum ávörpum verður svo boðið upp á pylsur og veigar, að sögn Viktors sem játar aðspurður að „nóg af brennivíni“ sé á staðnum.
Segir hann hátt í 2.000 manns hafa skráð sig í félagið við stofnun þess árið 1930. „Í dag erum við samkvæmt félagafjölda næststærsta stjórnmálaafl á Íslandi á eftir Sjálfstæðisflokknum og við höfum ekki fundið fyrir meiri meðbyr lengi, alveg sama þótt fylgi flokksins á landsvísu sveiflist eitthvað, félög ungra sjálfstæðismanna víðs vegar eru að lifna við úr dvala núna, Heimdallur var til dæmis að gefa út plötu í fyrrahaust,“ segir formaðurinn af starfsemi stjórnmálaaflsins.
„Frá byrjun var stefnumál félagsins að Ísland skyldi annast sín mál sjálft, það er barátta sem við erum enn að heyja, núna í umræðu um Evrópusambandið, og svo er það frelsi einstaklingsins sem við berjumst enn fyrir, við erum enn að tala um að lækka skatta og svo er það barátta allra stétta með þjóðlegum og víðsýnum augum,“ segir Viktor enn fremur.
Hann kveðst aðspurður líta stoltur yfir farinn veg á 95 ára afmælinu. „Við erum umdeild en aldrei hundsuð, við erum með mikla nýliðun fólks sem vill taka þátt í starfinu og er tilbúið að berjast og tileinka sér frelsið, vera ekki alltaf stjórnað af ríkisvaldinu. Stefna okkar á enn við og þess vegna erum við stærsti flokkurinn meðal ungmenna, við erum bjartsýn á framhaldið og spennt að taka við völdunum þegar þessi vinstri stjórn hefur sungið sitt síðasta. Við erum spennt að taka til í rústunum þegar núverandi stjórn fer frá og fólk sér að Sjálfstæðisflokkurinn er bara málið,“ segir Viktor sem ekki virðist skorta bjartsýni hins unga sjálfstæðismanns.
Hann segir eftirspurn eftir sjónarmiðum ungra sjálfstæðismanna aldrei hafa verið meiri. „Þau mál sem voru í deiglunni þegar sambandið var stofnað eru enn rædd. Þess vegna held ég að við þurfum akkúrat sterka ungliðahreyfingu, sterka samvisku og sterkan stjórnmálaflokk til þess að komast á beinu brautina aftur,“ segir Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, að lokum, staddur á Þingvöllum á 95 ára afmæli sambandsins.