Maðurinn sem handtekinn var í aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjórans í Sandgerði í gærkvöldi er íslenskur ríkisborgari á fertugsaldri.
Greint var frá því í gær að lögregla hefði verið kölluð til heimahúss í bænum vegna manns sem sagður var bera hníf. Þrír aðrir voru í húsinu en þá sakaði ekki.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is gat lögreglan á Suðurnesjum ekki veitt frekari upplýsingar um atburðarás aðgerðanna eða tengsl mannsins sem var handtekinn við hina einstaklingana.
Eins og sjá má á eftirfarandi myndum var talsverður viðbúnaður á svæðinu en fjöldi lögreglubíla, auk sjúkrabíls, voru kallaðir til.