„Það hafa allir einhverja skoðun á því hvað við erum að gera á daginn. Það er algjörlega verið að vega að okkar fagvitund, fagþekkingu, rannsóknum og öllu því sem er búið að vera að vinnast hérna, t.d. með tómstunda- og félagsfræði innan Háskóla Íslands.“
Þetta sagði Margrét Gauja Magnúsdóttir, skólastjóri Lýðskólans á Flateyri, sem talaði tæpitungulaust um breytingar á félagsmiðstöðvarstarfi í Akureyrarbæ á fimmtudag á samstöðufundi Samfés, FFF og FÍÆT í Stúdentakjallaranum.
Akureyrarbær sagði nýlega upp öllu starfsfólki félagsmiðstöðva bæjarins. Ákvörðunin hefur sætt gagnrýni en verður ekki endurskoðuð samkvæmt Kristínu Jóhannesdóttur, sviðsstjóra fræðslu- og lýðsheilsusviðs Akureyrarbæjar.
Margrét gagnrýndi bæjarstjórn Akureyrar fyrir ákvörðunina. Hún hefur 30 ára reynslu af æskulýðsstarfi og gaf það sterklega til kynna að breytingarnar væru ekki til bóta.
Af ræðu Margrétar mátti skynja að hún teldi illa vegið að fagþekkingu félagsmiðstöðvarstarfsfólks.
Þá talaði hún um skilningsleysi á störfum stéttarinnar og sagði til dæmis að ekki hefði verið langt síðan hún hafi verið spurð að því hvort félagsmiðstöðvarstarfsfólk spilaði bara borðtennis á daginn.
„Það er ekki nóg með það að við þurfum að vera að sanna tilverurétt á hverjum einasta degi liggur við, þá er alltaf verið að spyrja okkur: Hvað eru margir að mæta í félagsmiðstöðina til ykkar? Ég segi þegiðu. Spurðu mig hverjir eru að mæta, ekki hvað mæta margir,“ sagði Margrét ómyrk í máli.
„Það er leynt og ljóst okkar markmið að draga fram í dagsljósið úr skugganum jaðarsett ungmenni. Og það gerir það enginn betur heldur en við. Og ég get alveg fullyrt um það, það sýna rannsóknir.“
Hún talaði einnig fyrir lögvernd á starfsheiti tómstunda- og félagsmálafræðinga og sagðist hún sjálf hafa beitt sér fyrir málinu þegar hún var varaþingmaður fyrir rúmlega áratug síðan.
Margrét benti í ræðu sinni á tilfærslu fjármuna frá miðlægri félagsmiðstöðvareiningu til skólanna í bæjarfélaginu. Breytingin snýr að því að færa rekstur félagsmiðstöðvanna undir rekstur skólanna.
„Það er líka tvennt sem þarna skiptir máli. Þarna fær skólastjórinn hærri fjárveitingu inn á sína kennitölu, inn á sinn lykil hjá sveitarfélaginu, sem hann getur síðan ráðstafað og hann fær hærri laun líka. Ég vil minna ykkur á það. Það að vera skólastjóri á Íslandi, þú verður heldur ekki eitthvað geðveikt ríkur á því,“ sagði Margrét í ræðu sinni á Stúdentakjallaranum.
„Það þarf oft ekki nema einn misráðandi formann einhvers fræðsluráðs í einhverju sveitarfélagi sem telur sig vita betur, sem er ekki með neina fagþekkingu og enga reynslu og ekki neitt, kannski einhverja skitna MBA-gráðu, og heldur bara að það viti betur um hvað við eigum að vera að gera í vinnunni á daginn,“ sagði hún.
Akureyrarbær hefur gefið það út að ákvörðunin verði ekki endurskoðuð, þrátt fyrir mótbárur félagsmiðstöðvastarfsfólks en félögin sem stóðu að samstöðufundinum, Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi (Samfés), Félag fagfólks í frístundaþjónustu á Íslandi (FFF) og Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) hafa mótmælt ákvörðuninni og skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða hana í virku og opnu samráði við fagfólk, börn og ungmenni.