Þegar við fluttum hingað í sveitina fyrir níu árum fengum við vinnustofuaðstöðu í gamla fjósinu á Hjálmsstöðum í Laugardalnum og opnuðum þar gallerí, en þá vorum við stærri í minjagripaframleiðslu,“ segja þau hjón og listafólk Ágústa G. Malmquist og Ari Svavarsson sem búa í Útey við Laugarvatn ásamt fjórum köttum.
„Við leigjum þetta fallega hús sem er gamli bærinn í Útey II og núna erum við búin að koma upp vinnustofu hér inni á heimilinu, við færðum svefnherbergið okkar og stofuna í önnur rými hússins, enda börnin farin að heiman og nóg pláss. Við lokuðum vinnustofunni í fjósinu á Hjálmsstöðum þegar covid skall á,“ segja þau Ágústa og Ari sem bæði eru fædd og uppalin á Akureyri, en þau fluttu til Reykjavíkur fyrir tæpum þrjátíu árum þegar dætur Ara úr fyrra hjónabandi fluttu með móður sinni suður.
„Nokkru síðar þegar við vorum í leit að góðri vinnustofu sáum við gamalt hús á Suðurnesjum sem hentaði vel, svo við keyptum það og fluttum þangað og vorum þá með vinnustofu í gömlu útihúsi. Við bjuggum í Garðinum þar til hrunið skall á, en þá misstum við húsið og fluttum aftur í bæinn og vorum þá með vinnustofu og gallerí á Vesturgötunni. Nokkrum árum seinna langaði okkur til að flytja í sveit og krakkarnir okkar voru líka til í það, en við eigum saman tvö börn. Þegar við fundum þetta gamla fallega hús til leigu hér í Útey stukkum við til og hér höfum við unað hag okkar vel síðan, erum með fjóra hesta auk kattanna og lífið er harla gott.“
Ágústa og Ari eru bæði menntuð sem grafískir hönnuðir og unnu lengi við sitt fag, tvö saman sem eitt lið.
„Við vorum mest að vinna með hönnun umbúða og vörumerkja, til dæmis hönnuðum við lógóið fyrir Víking brugghús sem er enn í notkun hjá þeim og við unnum líka mikið fyrir Mjólkursamsöluna. Í hruninu dró verulega úr verkefnum og við vorum einmitt alveg til í að hvíla okkur á hönnunarvinnunni, enda vorum við byrjuð með ýmis hliðarverkefni, við hönnuðum og gáfum út Hnefatafl og Rúnaspil og framleiddum líka vandaða handgerða minjagripi. Þegar ferðamannaiðnaðurinn fór á flug um 2012 þá kom í ljós að við höfðum veðjað á réttan hest og vorum í framhaldinu mest í minjagripagerð, bjuggum til ýmisleg þjóðlegt, tréleikföng og bandrúnir sem sumar eru gamlir íslenskir galdrastafir en flestar hönnum við sjálf, rétt eins og galdramenn gerðu forðum. Við bjuggum líka til skart og gjafa- og tækifæriskort, en meðfram þessu höfum við alltaf verið að sinna myndlistinni,“ segir Ari sem er menntaður listmálari. Hann segist eiga erfitt með að mála annað en stór verk og að upp úr aldamótunum 2000 hafi hann sýnt verk sín á nokkrum stöðum.
„Á þeim tíma voru börnin okkar ung og því varð myndlistin út undan, en nú höfum við tíma til að sinna henni meira,“ segir Ari og Ágústa bætir við að hún hafi alla tíð sinnt myndlistinni í skorpum. „Ég vinn mest með vatnsliti og grafík í minni myndist, en kortin geyma fínlegar teikningar mínar af tófu, blómum, uglu, himbrima, rjúpum og fleiri fuglum. Kortin sem ég bý til sel ég undir merkinu Mána by Ágústa. Við framleiðum enn minjagripi þó í miklu minna mæli sé en hér áður þegar þetta fékkst í öllum lundabúðum. Núna fást munirnir okkar nánast einvörðungu í safnbúðum, meðal annars á Sögusafninu, Árbæjarsafni, Landnámssýningunni í Aðalstræti og Flóru menningarhúsi á Sigurhæðum á Akureyri. Við förum líka með vörurnar okkar á markaði, til dæmis á jólamarkaðinn við Elliðavatn.“
Þau segjast eftir hrun hafa farið að lifa mun nægusamara lífi en þau höfðu gert.
„Við lærðum í hruninu hvað skiptir máli, sá lífsmáti sem fylgir neysluhyggju gerir okkur ekki hamingjusöm. Skilgreiningin á bóhemum á ágætlega við okkur, við eyðum nánast engu og ég hirði allt sem aðrir vilja henda,“ segir Ari sem finnur gömlum hlutum gjarnan nýtt hlutverk. „Við kærum okkur kollótt um veraldlega hluti, við viljum frekar sinna okkar sköpun. Kannski finnst einhverjum við vera skrýtin, verandi á kafi í listinni, en okkur er alveg sama. Við erum sjálfum okkur næg,“ segja Ágústa og Ari sem bæði hafa unnið sem kennarar í sveitarfélaginu og Ari vinnur annað slagið í Skálholti sem kokkur. Hann vinnur líka við skiltagerð, því hann keypti prentara fyrir myndlistina á sínum tíma sem hann nýtir líka til skiltagerðar. Þau segja að fólk sem hafi áhuga á að kaupa myndlist þeirra eða hönnun geti lagt inn beiðni um að fá að heimsækja þau í sveitina á netfanginu: vinnustofa@niuheimar.is, líta inn í vinnustofuheimsókn til að skoða betur það sem þau eru að gera.
Facebooksíður: Ágústa Malmquist – Artist, Töfraskógur / Magic Forest, Níu heimar / Nine Worlds instagram: agusta_malmquist og mana.by.agusta
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.