Steingríms Hermannssonar fyrrverandi forsætisráðherra verður minnst í fimmtudagsgöngu á Þingvöllum fimmtudagskvöldið 3. júlí næstkomandi. Guðni Ágústsson leiðir gönguna, sem hefst kl. 20 við gestastofuna á Haki. Lilja Alfreðsdóttir mun minnast stjórnmálamannsins Steingríms og Guðmundur Steingrímsson mun tala um föðurinn sem jafnframt var stjórnmálamaður. Þá mun Jóhannes Kristjánsson eftirherma minnast Steingríms á sinn hátt og karlakórinn Fóstbræður syngur.
„Við pabbi töluðum mikið um pólitík,“ segir Guðmundur Steingrímsson við Morgunblaðið af þessu tilefni.
„Ég hefði haft gaman af að ræða við hann um alla þessa atburði og væringar sem nú eru í alþjóðamálum og það hefði verið fróðlegt að heyra hvernig hann hefði litið á það allt saman. Hann var pólitíkus sem sagði upphátt sína meiningu og lá ekkert á því sem hann var að hugsa um, var þekktur fyrir það. Hann var frjálslyndur stjórnmálamaður og mikill Íslendingur og sjálfstæðissinni en einnig víðlesinn og vel inni í alþjóðamálum og hafði frjálslyndar skoðanir í þeim efnum. Hann vildi beita sér fyrir því að efla samstarf og samtal milli þjóða og hafði mikla trú á gagnsemi þess. Hann var til dæmis einn af fyrstu þjóðarleiðtogunum sem fóru og hitti Arafat (leiðtoga Palestínumanna). Ég myndi segja að þetta sé hans arfleifð,“ segir Guðmundur.
Steingrímur sætti nokkurri gagnrýni fyrir að hitta Arafat árið 1990. „En það einkenndi pabba að hann var mjög áræðinn. Mér finnst það nú stundum vanta núna í pólitíkina, fólk má vera hugrakkara og það er allt í lagi að segja meiningu sína. Mér fannst NATO-fundurinn í vikunni til dæmis ekki einkennist af því að evrópskir ráðherrar væru endilega að segja meiningu sína og þetta var eiginlega sólarhrings niðurlæging. En þetta er einkenni á veröldinni í dag,“ segir Guðmundur.
Steingrímur hafði einnig mikinn áhuga á náttúruvernd og umhverfismálum og hefur Guðmundur erft þann áhuga, en hann stundar nú doktorsnám í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands. „Það er nú til dæmis eitt af því sem ég hefði haft mjög gaman af að ræða um við föður minn nú,“ segir hann.
Guðmundur rifjar upp að faðir hans beitti sér sem forsætisráðherra fyrir því að umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990.
„Það skildu nú ekki allir hvað hann væri að fara með það og sáu ekki tilganginn. En það reyndist vera mikil framsýni og nú er umhverfisráðuneytið eitt mikilvægasta ráðuneytið og málaflokkurinn kemur inn á öll svið.“
Guðmundur segir að Steingrímur hafi byrjað snemma að velta loftslagsmálum fyrir sér. „Það skildu nú ekki heldur margir hvað hann væri að gera þegar hann fór á umhverfisráðstefnuna í Ríó árið 1992 en það var nú ein merkilegasta ráðstefna sem hefur verið haldin og þá byrjaði heimsbyggðin að reyna að taka loftslagsmál föstum tökum. Þannig að hann var mikill náttúruverndarsinni og við áttum mikla samleið í því. Við vorum ekkert sammála um allt, okkur greindi á í Evrópumálum til dæmis og gátum rifist um þau dögum saman og hvorugur lýsti yfir sigri; það voru mikil átök. En um umhverfismálin vorum við mjög sammála.”
Guðmundur var á sínum tíma virkur í stjórnmálum, vafraði um á miðjum vinstri vængnum eins og hann orðar það. Hann var m.a. varaþingmaður fyrir Samfylkinguna 2007-8 en fór síðan í Framsóknarflokkinn og var kjörinn á þing fyrir flokkinn árið 2009 en sagði sig úr Framsóknarflokknum árið 2011, segist ekki hafa átt samleið með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem þá var formaður flokksins. Guðmundur var utan flokka út kjörtímabilið en stofnaði síðan flokkinn Bjarta framtíð með félögum í Besta flokknum og fleirum. „Það var skemmtilegt ævintýri,“ segir Guðmundur.
Hann sat á þingi fyrir Bjarta framtíð 2013-2016 en nú segist hann alveg hættur að skipta sér af stjórnmálum þótt hann velti þeim fyrir sér. „Ég sit bara og skrifa doktorsritgerð í umhverfisfræðum um hringrásarhagkerfið og hvernig við getum umgengist auðlindir okkar betur með meiri sjálfbærni að leiðarljósi. Ég sagði einmitt Guðna Ágústssyni, þegar hann bað mig um að taka þátt í göngunni á Þingvöllum, að helsta markmið mitt með doktorsnáminu væri að verða doktor Gummi og veita doktor Gunna ríkulega og tímabæra samkeppni í samfélaginu, hann getur ekki setið einn að þeim titli.“
Guðmundur segir að doktorsnámið sé ekki tekið út með sældinni, það kosti mikinn lestur og yfirlegu. „En þetta þokast.“ Nú um helgina mun Guðmundur þó líta upp úr bókunum og standa á sviðinu á Flatey á Breiðafirði með félögum sínum í hljómsveitinni Skárren ekkert, en þar hefur sveitin staðið fyrir árlegum dansleik í rúmlega einn og hálfan áratug.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.