Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir mál tengd Grindavík sitja föst í meðförum þingsins vegna veiðigjaldafrumvarps eða annarra fyrirferðarmikilla mála. Á meðan bíði Grindvíkingar í óvissu með framhaldið.
„Það eru stuðningsúrræði bæði við fyrirtækin og einstaklinga sem verið er að vinna að, búið að stilla upp og eru komin til meðferðar í þinginu,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.
Segir hann ríkisvaldið að flestu leyti með sömu sýn og heimamenn um það sem þurfi að gera en tímalínan sé ekki sú sama.
„Við viljum ganga í verkin og vera tilbúin þegar hægt er að flytja í auknum mæli inn í bæinn og fyrirtækin að hefja rekstur en ríkið hefur viljað staldra meira við. Þar erum við kannski ekki alveg á sömu línu hvað varðar tímasetningar,“ segir bæjarstjórinn.
Sú óvissa sé mjög óþægileg og reyni á samfélagið.
„Við vonum að það leysist sem fyrst úr þessu. Samtalið er í gangi en það er í biðstöðu. Þetta er margslungið og það er óvissa fram undan. Verður ekkert gos, eitt gos, tvö eða hvað? Við höfum trú á því sem okkar bestu vísindamenn segja, að það sé farið að styttast í endalokin á þessu svæði.“
Fannar vísar til umræðu á Alþingi á föstudag þegar Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Grindvíkingur, hafi rætt stöðu Grindavíkurbæjar.
Segir hann þó nokkra þingmenn hafa tekið til máls undir dagskrárliðnum og greindi bæjarstjórinn algjöran samhljóm um að nauðsynlegt væri að halda áfram stuðningi við íbúa og fyrirtæki í Grindavík. „Þannig að ég held að viljinn sé ríkur til að halda áfram með þetta,“ segir Fannar.
Í Morgunblaðinu í dag ræddi Vilhjálmur málefni Grindavíkur. Sagði hann að ríkisstjórnin ætti strax að koma að sprunguviðgerðum í bænum og öðrum nauðsynlegum viðgerðum til að sýna að hún standi með endurreisn samfélagsins.
Þá sagði Vilhjálmur að ríkisstjórnin þurfi að segja rekstraraðilum að þeim verði hjálpað að komast aftur á lappir og að þeim verði bjargað ef bæinn þurfi að rýma í skamman tíma á ný.
Þingmaðurinn sagði að þannig fengju rekstraraðilar tækifæri og sjálfstraust til að fara aftur af stað og endi ekki í gjaldþroti eins og stefnir í nú.
Fannar segir þó nokkuð líf í bænum og sérstaklega nokkuð mikinn atvinnurekstur í Grindavík og á Svartsengissvæðinu. Eins sé aukinn fjöldi ferðamanna í bænum sem og fleiri og fleiri staðir sem þjónusti þá að opna, á borð við veitingastaði og fleiri.
Bæjarstjórinn segir marga íbúa hafa gert hollvinasamninga og samninga um að fá að dvelja í bænum næturlangt. Spurður hvort margir ætli sér að búa í Grindavík segir hann að um helmingur íbúa svari því til í könnunum að þeir ætli sér til baka en erfitt sé að segja til um hvenær.
Þá sé þó nokkuð stór hópur sem ekki hafi forsendur til að svara því og sé í óvissu en eins einhverjir sem sjái ekki fyrir sér að flytja heim á nýjan leik.
Spurður út í sprunguviðgerðir og hvort bærinn verði öruggur þegar þeim verði lokið segir Fannar að búið sé að gera mjög nákvæmt kort af bænum og ítarlega aðgerðaráætlun um sprunguviðgerðir.
Það sé búið að forgangsraða í ákveðna hluti og vitað sé hvað sé eðlilegast að taka fyrir í upphafi.
„Þetta verkefni teygir sig yfir á næsta ár og jafnvel yfir á þriðja árið líka. Grindavíkurbær er búinn að leggja fram umtalsverða fjármuni í þessa vinnu en það er beðið eftir fjárveitingu frá ríkinu til að ganga í þessi mál,“ segir hann.
Fannar segir íbúum með lögheimili hafa smám saman fækkað í Grindavík. Í morgun hafi verið 868 íbúar með lögheimili í Grindavík en fyrir jarðhræringarnar voru íbúar nærri 3.800 talsins.
Hann segir að stórkostleg aðstoð hafi verið veitt þegar íbúðahúsnæði var keypt upp í mjög stórum stíl í Grindavík sem hafi orðið til þess að fólk hafi getað tryggt húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína.
„Þetta verður aldrei sama samfélagið en við viljum vera tilbúin með alla innviði og frágang á bænum þannig að ekki þurfi að bíða eftir því þegar fólk vill fara að flytja heim í stórum stíl.“
Bæjarstjórinn segir mörg jákvæð teikn uppi um endurreisn bæjarins og segir bjartsýni aukast hjá fólki yfir sumartímann. Nú líði lengri tími á milli atburða sem aftur gefi meira svigrúm.
Segir hann að almennt þegar Grindvíkingum gefist tækifæri til að hittast á ýmiss konar viðburðum hafi þeir verið mjög vel sóttir og segir til að mynda að í sumar sé meiri aðsókn á Grindavíkurvöll, þar sem knattspyrnulið Grindavíkur leika sína heimaleiki, en fyrir jarðhræringarnar.
„Það er bara stemning fyrir öllu sem hægt er að samgleðjast yfir. Fólk fagnar því og nýtir hvert tækifæri.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.