Rektorsskipti í Háskóla Íslands fóru fram klukkan tvö í dag þar sem Silja Bára R. Ómarsdóttir tók við embættinu af Jóni Atla Benediktssyni. Hann hefur starfað við skólann frá árinu 1991 og gegnt embætti rektors frá 2015.
Silja Bára hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2005, fyrst sem aðjúnkt og svo sem prófessor við stjórnmálafræðideild og var kjörinn rektor skólans 27. mars síðastliðinn með 50,7% atkvæða.
Meðal gesta við athöfnina voru Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og eiginmaður hennar Björn Skúlason. Einnig voru Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og og háskólaráðherra, og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, viðstaddir athöfnina, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur, sem öll hafa gegnt embætti forseta Íslands.
Í ræðu sinni minntist Silja Bára á að það þurfi sérstaklega að gæta þess að háskólinn sé allra landsmanna, ekki bara þeirra sem eiga sér hér djúpar rætur heldur líka þeirra sem rétt eru að skjóta rótum.
„Þrátt fyrir mikla fjölgun íbúa landsins er fjöldi stúdenta við HÍ nokkurn veginn sá sami og hann var fyrir áratug. Hann hefur vissulega sveiflast mikið innan þess tíma en kannski er hann ekki meiri vegna þess að innflytjendum er ekki að fjölga jafn mikið í háskólanámi og í samfélaginu í heild, því fólks fjölgun er fyrst og fremst þeim að þakka,“ sagði Silja Bára.