Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra telur ekki þörf á sjálfstæðri rannsóknarnefnd til að sinna rannsókn á störfum réttarvörslu- og eftirlitsstofnana í kjölfar fjármálahrunsins. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ábyrgðarleysi að láta kerfið rannsaka sig sjálft.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Þorbjörg sendi bréf á Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara þar sem óskað var eftir upplýsingum um meðferð, vörslu og eyðingu gagna og upplýsinga sem urðu til við símhlustanir í tengslum við rannsóknir embættis sérstaks saksóknara. Hún lét svo Alþingi þær upplýsingar í té.
„Þetta snýst um traust á ákæruvaldi, trúverðugleika stjórnvalda og grundvallaröryggi borgaranna gagnvart valdbeitingu ríkisins. Svörin sem ráðherrann kallaði eftir eru ekki til þess fallin að ljúka málinu. Þvert á móti staðfesta þau það sem gagnrýnt hefur verið frá upphafi, að kerfið brást. Eftirlitið var ófullnægjandi og ábyrgðin var óljós. Ég spyr: Hvað ætlar hæstvirtur dómsmálaráðherra að gera núna? Ætlar hún að treysta áfram á kerfið eða hefur hún pólitískt hugrekki til að kalla strax eftir sjálfstæðri rannsókn?” spurði Guðrún.
Ríkissaksóknari hefur falið lögreglunni á Suðurlandi að rannsaka meint brot er varða umfangsmikinn gagnastuld úr kerfum sérstaks saksóknara af hálfu njósnafyrirtækisins PPP fyrir rúmum áratug. Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur einnig tekið upp málið.
Þorbjörg benti á að málið væri nú í formlegri skoðun á mörgum stöðum. Sagði hún lögregluna vera með ákveðinn anga til skoðunar, Persónuvernd annan, sérstök óháð nefnd þann þriðja og Alþingi sjálft það fjórða.
„Ég tel að þessi upptalning sýni að við séum sannarlega að bregðast við með þeim þunga sem málið kallar á.“
Guðrún hefur áður lagt til að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd sem skuli rannsaka starfsemi þeirra réttarvörslu- og eftirlitsstofnana sem komu að rannsókn og málsmeðferð sakamála í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008.
Guðrún sagði í svari við Þorbjörgu að upplýsingarnar sem nú lægju fyrir vekja alvarlegar spurningar um réttaröryggi borgaranna og traust á ákæruvaldi.
„Dómsmálaráðherra vissi vel hvaða ásakanir lágu fyrir og valdi að setja málið í þann farveg að skrifa bréf til aðila sem voru sjálfir þátttakendur í því sem á að rannsaka. Ég tel það ekki ábyrga stjórnsýslu. Ég tel það frekar að vera pólitískt ábyrgðarleysi.“
Guðrún spurði ráðherrann því enn á ný um næstu skref.
„Ég spyr því aftur nú þegar þessar upplýsingar liggja fyrir: Þetta er ekki grunur, þetta er staðreynd, heldur staðfest misræmi í verklagi og ábyrgð. Hvað þarf meira að koma fram til að ráðherra bregðist við? Hvenær ætlar hún að stíga það skref sem hefði átt að stíga fyrir löngu og setja af stað óháða rannsóknarnefnd?“ spurði Guðrún.
Þorbjörg segir að hún hafi strax virkjað sínar eftirlits- og yfirstjórnunarheimildir með því að senda bréf til héraðssaksóknara með sex tilgreindu spurningum, sem fanga kjarna viðfangsefnisins til að rýna hvernig verklagi var háttað.
Einnig nefndi hún að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væri starfandi í þeim tilgangi að rýna svona mál.