Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu á kynferðislegu myndefni af börnum.
Maðurinn var enn fremur dæmdur til greiðslu 567.000 kr. í sakarkostnað.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra gaf út ákæru á hendur manninum í ágúst í fyrra. Þar er hann sakaður um kynferðisbrot með því að hafa í desember 2023 verið með í vörslu sinni og dreift kynferðislegu myndefni af börnum og myndefni þar sem verið var að misnota börn. Efnið fannst í farsíma mannsins.
Um var að ræða 18 myndbönd og 30 ljósmyndir.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi leitað til lögreglu aðfaranótt 3. desember 2023 vegna líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir. Þá er vísað í samantekt lögreglu um framburð mannsins sem var tekinn um nóttina, en þar segir að réttarstöðu hans hafi verið breytt um miðbik skýrslutöku úr vitni í sakborning vegna upplýsinga sem þar komu fram.
„Málið virðist tengjast árás gegn honum vegna meintrar vörslu og dreifingar á barnaníðsefni og viðurkenndi X að hafa slíkt efni á farsíma sínum auk dreifingar,“ segir í samantekt lögreglu.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að daginn eftir hafi maðurinn veitt lögreglunni heimild til leitar í íbúð hans, geymslu í öðru húsnæði og bifreið í hans umráðum. Einnig virðist hann hafa veitt lögreglu heimild til að skoða síma sinn þótt engin gögn liggi fyrir um það, sem og flakkara, leikjatölvu og myndavél.
Maðurinn sagði við skýrslutöku lögreglu að það hefði verið brotist inn til hans og hann hefði verið laminn „í stöppu“. Hann hefði verið spurður hvort hann þekkti nafngreinda manneskju, hann hefði neitað því og verið laminn, meðal annars með hamri í höfuð. Hann tók fram að hann hefði ekki jafnað sig að fullu eftir árásina og endurupplifði hana við vissar aðstæður. Hann kvaðst ekki kannast við að árásin hefði tengst vörslum barnaníðsefnis.
Þá kvaðst hann ekki geta skýrt myndefnið sem fannst í símanum. Hann hélt að einhver hefði einhvern tíma „airdroppað“ einhverju til hans í miðbæ Reykjavíkur. Það hefði þó verið svo langt síðan.
Í niðurstöðukafla héraðsdóms segir að maðurinn hafi vitað af myndefninu.
„Að áliti dómsins verður ákærði að bera á því ábyrgð að hafa efnið áfram í sínum vörslum eftir að honum varð kunnugt um það. Verður ákærði því sakfelldur fyrir að hafa haft það myndefni sem er lýst í ákæru í sínum vörslum og varðar það við 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga. Hins vegar kom fram hjá vitninu D að engin ummerki hafi verið um að ákærði hafi dreift slíku efni og verður ákærði sýknaður af þeim sakargiftum.“
Þá gerði héraðsdómur farsíma mannsins upptækan.