Kom til lögreglu sem vitni en varð sakborningur

Sími mannsins var gerður upptækur.
Sími mannsins var gerður upptækur. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdóm­ur Norður­lands eystra hef­ur dæmt karl­mann í 30 daga skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir vörslu á kyn­ferðis­legu mynd­efni af börn­um.

Maður­inn var enn frem­ur dæmd­ur til greiðslu 567.000 kr. í sak­ar­kostnað.

Lög­reglu­stjór­inn á Norður­landi eystra gaf út ákæru á hend­ur mann­in­um í ág­úst í fyrra. Þar er hann sakaður um kyn­ferðis­brot með því að hafa í des­em­ber 2023 verið með í vörslu sinni og dreift kyn­ferðis­legu mynd­efni af börn­um og mynd­efni þar sem verið var að mis­nota börn. Efnið fannst í farsíma manns­ins.

Um var að ræða 18 mynd­bönd og 30 ljós­mynd­ir.

Leitaði til lög­reglu vegna lík­ams­árás­ar

Fram kem­ur í dómi héraðsdóms að maður­inn hafi leitað til lög­reglu aðfaranótt 3. des­em­ber 2023 vegna lík­ams­árás­ar sem hann hefði orðið fyr­ir. Þá er vísað í sam­an­tekt lög­reglu um framb­urð manns­ins sem var tek­inn um nótt­ina, en þar seg­ir að rétt­ar­stöðu hans hafi verið breytt um miðbik skýrslu­töku úr vitni í sak­born­ing vegna upp­lýs­inga sem þar komu fram.

„Málið virðist tengj­ast árás gegn hon­um vegna meintr­ar vörslu og dreif­ing­ar á barn­aníðsefni og viður­kenndi X að hafa slíkt efni á farsíma sín­um auk dreif­ing­ar,“ seg­ir í sam­an­tekt lög­reglu.

Fram kem­ur í dómi héraðsdóms að dag­inn eft­ir hafi maður­inn veitt lög­regl­unni heim­ild til leit­ar í íbúð hans, geymslu í öðru hús­næði og bif­reið í hans umráðum. Einnig virðist hann hafa veitt lög­reglu heim­ild til að skoða síma sinn þótt eng­in gögn liggi fyr­ir um það, sem og flakk­ara, leikja­tölvu og mynda­vél.

Lam­inn „í stöppu“

Maður­inn sagði við skýrslu­töku lög­reglu að það hefði verið brot­ist inn til hans og hann hefði verið lam­inn „í stöppu“. Hann hefði verið spurður hvort hann þekkti nafn­greinda mann­eskju, hann hefði neitað því og verið lam­inn, meðal ann­ars með hamri í höfuð. Hann tók fram að hann hefði ekki jafnað sig að fullu eft­ir árás­ina og end­urupp­lifði hana við viss­ar aðstæður. Hann kvaðst ekki kann­ast við að árás­in hefði tengst vörsl­um barn­aníðsefn­is.

Þá kvaðst hann ekki geta skýrt mynd­efnið sem fannst í sím­an­um. Hann hélt að ein­hver hefði ein­hvern tíma „air­droppað“ ein­hverju til hans í miðbæ Reykja­vík­ur. Það hefði þó verið svo langt síðan.

Verður að bera ábyrgð á efn­inu

Í niður­stöðukafla héraðsdóms seg­ir að maður­inn hafi vitað af mynd­efn­inu.

„Að áliti dóms­ins verður ákærði að bera á því ábyrgð að hafa efnið áfram í sín­um vörsl­um eft­ir að hon­um varð kunn­ugt um það. Verður ákærði því sak­felld­ur fyr­ir að hafa haft það mynd­efni sem er lýst í ákæru í sín­um vörsl­um og varðar það við 1. mgr. 210. gr. a al­mennra hegn­ing­ar­laga. Hins veg­ar kom fram hjá vitn­inu D að eng­in um­merki hafi verið um að ákærði hafi dreift slíku efni og verður ákærði sýknaður af þeim sak­argift­um.“

Þá gerði héraðsdóm­ur farsíma manns­ins upp­tæk­an.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert