Árnasafn í Kaupmannahöfn er enn lokað vegna myglu.
Handrit Árna Magnússonar hafa ekki komist í tæri við mygluna, en myglufaraldur á syðra svæði háskólans í Kaupmannahöfn veldur því að margar byggingar og stofnanir innan skólans verða lokaðar fram á haust.
„Viðgerðir vegna myglu munu standa yfir í sumarfríinu og fram að hausti,“ segir í skriflegu svari Anne Mette Hansen, forstöðumanns safnsins, við fyrirspurn mbl.is.
„Því stendur tímabundin lokun stofnunarinnar enn yfir,“ segir hún.
Handritasafnið hafi ekki orðið fyrir barðinu á myglunni, enda staðsett í eins konar hvelfingu innan byggingarinnar.
Um helmingur handritasafns Árna Magnússonar er í vörslu Árnasafns við Kaupmannahafnarháskóla, en mygla hefur verið á suðursvæði skólans síðan á síðasta ári.
Hansen segir handritin undir strangri öryggisgæslu og að starfsmaður stofnunarinnar líti til með þeim á hverjum degi.
Í tilkynningu á heimasíðu Árnasafns í Kaupmannahöfn segir að vegna lokunarinnar sé hvorki hægt að panta myndir af handritunum né fara með þau í lesstofu.