„Núna gekk allt út á að reyna að sýna fram á að það að Mia blandaði sér í þetta hefði bara verið verra fyrir mig. Það hefði valdið því að ég skaðaðist meira en ella hefði verið.“
Þetta segir Ingunn Björnsdóttir, dósent í lyfjafræði við Háskólann í Ósló, sem hlaut alvarleg sár þegar nemandi hennar, Eivind Jakob Haug, þá 23 ára gamall, stakk hana ítrekað með eggvopni á skrifstofu hennar 24. ágúst 2023. Eins og mbl.is greindi frá nýlega er dómur nú fallinn á norska millidómstiginu lögmannsrétti, en það var Lögmannsréttur Borgarþings í Ósló sem kvað hann upp.
Staðfesti lögmannsréttur dóm Héraðsdóms Óslóar frá 11. september í fyrra, sjö og hálfs árs dóm með því réttarúrræði sem á norsku kallast „forvaring“ og táknar bókstaflega varðveisla á íslensku, en með því úrræði er mögulegt að framlengja afplánun sakamanns í fimm ára þrepum án þess að ný ákæra sé gefin út, teljist líklegt að mati geðfróðra manna að hætta sé á að hinn brotlegi brjóti af sér á ný gangi hann laus.
Er með þeim hætti mögulegt að halda hættulegustu afbrotamönnum, sem ekki eiga sér viðreisnar von, bak við lás og slá til æviloka þótt enn hafi forvaring-dómur í Noregi aldrei verið framlengdur uns dauðans óvissi tími rennur upp. Er það þó hald margra að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik verði fyrstur norskra sakamanna til að fá dóm sinn framlengdan til dauðadags.
Mia sú, sem Ingunn nefnir, er Mia Catharina Nikolaisen Heimdal, lektor við skólann, sem bjargaði lífi samkennara síns með því að grípa inn í ásamt fleirum er Haug réðst til atlögu ágústdaginn örlagaríka fyrir tæpum tveimur árum. Reyndi hann að stytta Ingunni aldur með því að skera hana í hálsinn og stinga hana ítrekað með eggvopni.
Hlaut hún þriggja til fjögurra sentimetra langan skurð á hálsinn framanverðan, stungusár á vinstri hlið líkamans sem náði inn í kviðarhol, tvö stungusár á brjóst, eitt á vinstri síðu, níu á vinstri handlegg og tvö skurðsár á hægri fótlegg.
„Mér fannst ekki heil brú í því sem hann sagði,“ segir Ingunn og á þar við framburð ákærða fyrir lögmannsrétti, „hann treysti auk þess verjanda sínum greinilega ekki vel, því í bæði skiptin [fyrir héraðsdómi og lögmannsrétti] vildi hann halda sína lokatölu og í bæði skiptin gerði það bara illt verra fyrir hann,“ heldur hún áfram.
Þá segir hún Haug hafa viðhaft truflandi háttsemi við réttarhöldin. Hafi hann kinkað kolli eða hrist höfuðið við ýmis tækifæri auk þess að rétta upp hönd er hann kaus að fá að leggja orð í belg sem dómari leyfði vitaskuld ekki.
„Þetta gerði hann bæði þegar Mia var að tala og ég, meira þó þegar Mia var að tala, en fyrir héraðsdómi var það öfugt. Eitt skiptið núna fyrir lögmannsrétti þegar hann rétti upp hönd tók verjandinn bara í höndina á honum og dró hana niður. „Þetta var allt rosalega furðulegt og lögmennirnir og sérfræðingarnir – geðlæknirinn og sálfræðingurinn – sögðust aldrei hafa séð neitt þessu líkt,“ segir Ingunn frá.
Aðspurð kveðst hún hafa verið ánægð með frammistöðu réttargæslumanns brotaþola málsins, Hege Salomon, sem raunar er einn helsti sérfræðingur Noregs í málefnum brotaþola, „svo við fengum mjög góðan réttargæslumann“, segir Ingunn.
Málflutningurinn fyrir lögmannsrétti tók rúman dag, einn dag og eina og hálfa klukkustund segir Ingunn, en aðalmeðferð héraðsdóms náði yfir fjóra daga.
„Ástæðan fyrir því að Mia var með á þessum fundi var í raun að ég hafði verið prófdómari í Namsos [bær í Þrændalögum] daginn áður og hún hafði þá borið ábyrgð á prófinu í Ósló. M [samstarfskona sem ekki er nafngreind hér] kom inn vegna þess að bæði í fyrra skiptið sem hann [Haug] féll og það seinna hafði ég beðið hana að banka hjá mér vegna þess að ég vissi að hann var dálítill þverhaus og það gæti orðið erfitt að koma honum út,“ rifjar dósentinn upp.
Geturðu tjáð þig eitthvað um persónuleika árásarmannsins, nemanda þíns?
„Ég get í sjálfu sér vitnað í greiningar sem hann hefur fengið,“ svarar Ingunn um hæl, sem þó hafði verið búin að komast að því af eigin rammleik, eftir að hafa kennt Haug, að hann gæti verið „dálítill þverhaus“ eins og hún segir hér að ofan.
„Þeir eru nokkrir búnir að greina hann með væga einhverfu og réttargeðlæknirinn sagði að hann væri með persónuleikaröskun og það er þessi samsetning, einhverfa og persónuleikaröskun, sem veldur því að hann læsir sig fastan á einhverjar ranghugmyndir. Hann telst ekki vera með geðsjúkdóm og því telst hann sakhæfur. En af því að hann varð svona bandvitlaus út af tiltölulega litlu mótlæti er hann talinn samfélaginu hættulegur. Enginn veit hvenær hann „snappar“ næst eða út af hverju,“ segir Ingunn og er spurð hvort hún muni sérstaklega eftir Haug sem áberandi í kennslunni.
„Nei,“ svarar hún ákveðið, „hann var ekki áberandi. Ástæðan fyrir því að ég man ágætlega eftir honum er að annar nemi, sem var í sama apóteki og hann, vildi skipta um apótek eftir mánuð og fékk það. Þá athugaði ég hvort þeir gætu báðir skipt um apótek því það var svo lítið að gera í þessu tiltekna apóteki að það var ekki nóg fyrir tvo nema og varla nóg fyrir einn ætti hann að ná einhvers konar magnþjálfun,“ heldur Ingunn áfram.
Komið er að vatnaskilum í lífi hennar þar sem hún treystir sér ekki til að gegna dósentsstöðu sinni áfram eftir áfallið. „Núna er verið að vinna að starfslokasamningi fyrir mig. Mér líður ekki sérstaklega vel í Ósló eftir þetta, ég er alltaf einhvern veginn aðeins á varðbergi og það fer ekkert voðalega vel með heilsuna,“ segir hún frá eftir að hafa gegnt stöðunni frá því í október 2013. „Ég flutti til Noregs til að taka við þessari stöðu,“ segir Ingunn sem starfaði hjá embætti landlæknis áður en hún hleypti heimdraganum og flutti til Noregs.
Fram undan hjá Ingunni eru flutningar til Íslands í sumar eða haust, en lífsreynslan í ágúst 2023 hafði annað kennslustarf í för með sér sem gerir Ingunni kleift að hjálpa öðrum og styðja þá. Hún tók að kenna á svokölluðum PLIVO-námskeiðum, upphaflega samstarfsverkefni lögreglu, slökkviliðis, björgunarsveita og heilbrigðiskerfis.
PLIVO var komið á fót eftir hryðjuverkaárás Breiviks sumarið 2011 og stendur fyrir „pågående livstruende vold“, eða yfirstandandi lífshættuleg ofbeldisbeiting, og kennir almenningi, svo sem fólki á vinnustöðum, að bregðast við skyndilegum árásum sem setja daglegt líf úr skorðum og geta kostað mannslíf. Sem betur fer var það ekki tilfellið í Óslóarháskóla í ágúst 2023, en ljóst að þar hefði mun verr getað farið.
Námskeiðin sem Ingunn hefur komið að eru á vegum háskólans og þeim stjórnar Kenneth nokkur Nielsen. Segir Ingunn brögð að því að aðrir háskólar panti námskeiðin sem Nielsen heldur úti.
„Þetta gengur bara út á að segja frá því sem gerðist og aðrir háskólar geta pantað námskeið ef þeir vilja,“ segir dósentinn sem einnig mun flytja erindi um atburðinn á ráðstefnu í september á vegum háskólasamtakanna Nordic Association of University Administrators auk þess sem hún flutti erindi á ráðstefnunni Sikresiden í mars í fyrra.
„Fólki þykir auðveldara að fá svona raundæmi, þá getur það hugsað með sér „fyrst þetta kom fyrir hana getur þetta komið fyrir mig“ og þá er kannski auðveldara að setja sig í þessi spor,“ heldur hún áfram.
Hún segir árásarmanninn Haug hugsa á öðrum nótum en fólk flest, en þess má geta að Haug og verjandi hans áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar örskömmu áður en áfrýjunarfrestur rann skeið sitt á enda. Tekur áfrýjun þeirra þó einungis til þess þáttar er snýr að réttarúrræðinu varðveislu, eða forvaring, sem ítarlega er útskýrt í upphafi viðtalsins.
Frá þessu greindi norski vefmiðillinn Khrono í fyrradag eftir að hafa sett sig í samband við Petar Sekulic verjanda dómfellda. Málinu er því ekki lokið í norsku refsivörslukerfi enn sem komið er, þótt tölfræðin styðji ekki að Hæstiréttur taki að sér dómsmeðferð mála sem lögmannsréttur hefur staðfest úr héraði. Sakamaður og verjandi hyggjast sem sagt freista þess að fá dómum héraðsdóms og lögmannsréttar snúið yfir í hefðbundna fangelsisrefsingu sem táknar að sá möguleiki að Haug afpláni lengri tíma en sjö og hálft ár yrði úr sögunni.
„Hann sagði við réttarhöldin að nú væri ekki aðalmálið að fá forvaring-dóminum hnekkt heldur væri það að leiðrétta sumt sem héraðsdómur hefði misskilið. Hann er alltaf á því að hann einn skilji hlutina, en enginn annar skilji þá,“ segir Ingunn af þessum fyrrverandi nemanda sínum sem fræðilega séð gæti setið í fangelsi til æviloka í skjóli réttarúrræðisins forvaring í norska refsivörslukerfinu.
Brást maðurinn sem sagt svona ókvæða við þegar hann féll á þessu prófi, var það eina ástæðan?
„Já,“ svarar Ingunn, „og þar með var ég bara hræðileg manneskja og alveg óhæf í mínu starfi,“ segir hún enn fremur og kveður Haug hafa verið kominn á nokkra refilstigu í lyfjafræðináminu þegar hann féll á prófinu hjá henni.
„Sumarið 2022 var hann búinn að fullnýta sín tækifæri í öðru námskeiði þar sem hann var búinn að falla þrisvar. Þá var honum hent út úr náminu, en sækir um undanþágu, fær hana og nær prófinu í fjórðu tilraun,“ heldur hún áfram og kveðst hafa vissar áhyggjur af skólanum, sínum brátt fyrrverandi vinnustað.
„Persónuleikatruflanir og einhverfa er ekki eitthvað sem fellur ofan í höfuðið á 23 ára gömlum dreng og það veldur mér áhyggjum af því að menn hafi ekki verið nægilega vakandi fyrir vísbendingum um að hann myndi líklega ekki plumma sig í þessu námi. Mér finnst hann hafa fengið dálítið góða þjónustu,“ lýsir Ingunn og við komum að lokaspurningu.
Hvernig líður þér eftir þetta allt saman? Þetta er töluverð reynsla að fara í gegnum og afleiðingarnar miklar, þú lætur af störfum og flytur til Íslands.
Ingunn samsinnir hugleiðingum blaðamanns. „Já já, tímabilið eftir þetta fór ég í gegnum það sem er víst kallað „brúðkaupsferðarfasinn“. Þá var ég ofboðslega lukkuleg með að hafa lifað af. Á meðan ég lá á sjúkrahúsi og gat mér litla björg veitt var ég í einhverri lukkurús yfir að hafa lifað af,“ segir hún frá.
„Síðan hefur þetta verið svona upp og niður, en frá degi til dags er ég í þokkalega góðu standi,“ heldur hún áfram og kveðst ótrúlega vel gróin sára sinna eftir að hafa hlotið 21 áverka. „Hægri fóturinn á mér virkar kannski ekki alveg eins og hann á að gera, en ég get samt gengið miklar vegalengdir. Ég hef lagt mikla áherslu á að ná til baka því sem var tekið af mér.
Ég næ náttúrulega ekki vinnunni til baka. Það er hvorki klókt hvað mig varðar né framtíðarnemendur að hafa manneskju með minn bakgrunn í þessu starfi,“ segir Ingunn og kveður það ótrúlegt að ráðist hafi verið á hana inni á eigin skrifstofu sem flestir telji tiltölulega öruggan stað.
Hún hefur unnið mikið í sjálfri sér eftir það sem gerðist og leggur áherslu á að hún sé brotaþoli, ekki fórnarlamb. Sú hugtakanotkun sé henni mikilvæg.
„Ég gerði við fötin sem ég var í og hef auk þess gert í því að ferðast til staða sem hafa orð á sér fyrir að vera dálítið hæpnir – svona til þess að sjá hvað ég þoli,“ segir viðmælandinn og kveður þetta hafa gengið allt að óskum.
„Mér fannst ég ekki eiga neitt val og ef ég ætlaði að eiga nokkurn veginn ótruflað líf af þessu þá yrði ég að vinna í því og það er það sem ég er að gera,“ segir Ingunn ákveðin. „Ég er í áfallameðferð hjá yndislegri konu á Íslandi og ég get ekki kvartað yfir Ullevål-spítalanum, læknar þar saumuðu mig mjög vel saman svo ég er ekki einu sinni með mjög mikil ör,“ segir hún frá og deilir sérstöku ljósmyndaverkefni með blaðamanni.
„Hún Myriam Marti [Guðmundsdóttir ljósmyndari] bauð mér að koma í myndatöku, hana langaði að mynda örin, og út úr því komu nokkuð skemmtilegar myndir þótt það sé ekkert skemmtilegt við þetta, en gálgahúmorinn fleytir manni langt og auðvitað eru alltaf léttar hliðar á öllum málum.
Ég er þolandi árásar, ekki fórnarlamb. Ef þú ferð í fórnarlambsgírinn þá eru lífsgæðin svolítið farinn. Ég er ekki einu sinni reið við strákinn, en ég hef inn á milli orðið reið við vinnustaðinn minn,“ segir Ingunn Björnsdóttir, fráfarandi dósent í lyfjafræði við Háskólann í Ósló, við lok frásagnar af atburðum síðsumars 2023 sem víst er að fáir gengju teinréttir frá.