Íbúar í Grafarvogi hafa tekið fyrsta skrefið í hópmálsókn gegn Reykjavíkurborg. Leitað hefur verið til lögfræðinga sem vinna nú að málinu en það varðar mótmæli íbúa gegn þéttingaráformum á svæðinu. Borgin hefur í hyggju að byggja 50-100 íbúðir án þess að gera ráð fyrir bílastæðum.
Þetta er meðal þess sem Sigrún Ásta Einarsdóttir, íbúi í Grafarvogi, segir í samtali við mbl.is. Ekki sé þó tímabært að veita frekari upplýsingar um stöðu málsins.
„En við erum búin að hitta stóra lögfræðistofu, mjög virta lögfræðistofu.“
Í Skipulagsgátt Reykjavíkur er að finna breytingartillögu við deiliskipulag borgarinnar til ársins 2040 þar sem lagt er til að uppbygging íbúðarhúsnæðis verði á „vannýttum svæðum“ innan gróinna hverfa.
Þessu hafa íbúar í Grafarvogi mótmælt af krafti og þegar athugasemdafrestur um tillöguna rann út í skipulagsgáttinni þann 15. maí höfðu um 1.300 manns skilað inn athugasemd. Þá hafa einhverjir íbúar lýst áformunum sem „eyðileggingarstarfsemi“ og aðrir sagt hin vannýttu svæði vera lungu íbúa hverfisins.
Nú síðast neitaði borgin að slá útisvæði í Grafarvogi sem hefur að alltaf verið slegið á sumrin og er mikið notað undir hina ýmsu afþreyingu Svo fór að íbúar tóku til hendinni og slógu grasið sjálfir í gærkvöldi.
„Það voru alveg margir sem höfðu orð á því í gær að það læðist að manni sá grunur að þetta sé vegna þess að við höfum verið að mótmæla. Við erum mjög mörg búin að vera hávær í mótmælum gegn þéttingunni og þetta er einn af þeim reitum sem á að fara að byggja á. Er borgin í þvermóðsku að láta þetta svæði fara í órækt til að sýna fram á að það sé ekki nýtt, til að hafa sterkari rök fyrir þéttingunni?“ segir Sigrún.
Þá bætir hún við að hún sjái borgina ekki sleppa því að slá önnur skilgreind útisvæði eins og Klambratún eða Hljómskálagarð. „Ég skil og er alveg sammála því að sum svæði megi vera þetta sem þeir kalla „viljandi villt“, en útivistarsvæði sem er notað af íbúum er ekki þess háttar svæði“.
„Umrætt svæði var skilgreint útivistarsvæði í deiliskipulagsbreytingu árið 2003, eftir mikil mótmæli íbúa í hverfinu vegna þess að það átti þá að þétta gríðarlega á þessu svæði, við erum í déjà vu,“ segir Sigrún. Íbúar, sem margir hverjir búi enn þá á svæðinu, hefðu barist fyrir þessu og borgin í lokin lofað uppbyggingu á útivistarsvæðinu.
Uppbygging á svæðinu hefði til dæmis átt að fela í sér uppsetningu leiktækja og skíða- og sleðabrekku, en ekkert hefði verið gert í 22 ár.
„Þetta var árið 2003, eftir baráttu íbúa sem upplifa sig auðvitað svikna núna. Þetta var fyrir island.is og allt stafrænt. Þarna var gengið í hús með undirskriftalista sem var kvittað á með penna. Þetta er ótrúlegt afrek, þau höfðu ekki samfélagsmiðla til að láta í sér heyra eins og við í dag,“ bætir Sigrún við.
Hún hefði verið meðvituð um söguna og baráttu íbúa en það hefði ekki hvarflað að henni að borgin myndi ganga á bak orða sinna og taka svæðið af íbúum.
„Við höfum mörg sent inn beiðnir um slátt af því að svæðið er orðið úr sér vaxið af njólum og engin prýði, en við fengum öll svarið „nei, það verður ekki slegið í sumar“. Krakkarnir voru hættir að geta leikið sér á svæðinu. Það gat enginn notað svæðið.“
Fenguð þið einhver rök?
„Nei, við fengum engin rök. Það var alltaf bara sagt að svæðið væri á plani í lok sumars en sumarið er tíminn sem krakkar eru úti allan daginn að leika sér og fólk er að æfa flugukast, golfsveiflur, fótbolta og leika sér með flugdreka. Þetta svæði er mikið notað, af hundaeigendum og öðrum.
En svæðið var ónothæft. Eftir þessi svör borgarinnar var eini kosturinn að gera þetta sjálf. Við leigðum lítinn slátturtraktor og söfnuðumst þarna saman. Margir vissu ekki af þessu en sáu okkur og hlupu út með slátturvélarnar sínar. Það var svo dásamlegt að um leið og það opnaðist smá grasblettur þá voru krakkarnir mættir með bolta og frisbídiska og léku sér innan um okkur sem vorum að slá. Það er ástæðan fyrir því að við vorum að slá, til að fá fólk út á tún.“
Sigrún segir kvöldið hafa verið dásamlegt með frábæru fólki. Samstaðan í hverfinu sé ótrúleg.
„Hún er mögnuð. Sumir vissu ekkert af þessu en sáu okkur þarna, áttu rafmagnsvél, fundu framlengingarsnúru og tóku jaðrana á túninu á meðan bensínvélin vann í miðjunni.
Svo grilluðum við bara pylsur og vorum með tónlist. Þetta var virkilega skemmtilegt kvöld hjá okkur.“
Spurð hvort vinna sé hafin við að höfða mál gegn borginni svarar Sigrún:
„Já algjörlega, og okkur er full alvara. Það er út af þessu sem við erum að þessu. Það er út af útivistarsvæðinu og lífsgæðunum sem við búum við. Þetta er deiliskipulagið sem var þegar við ákváðum að flytja þangað, ég og mín fjölskylda. Við skoðuðum deiliskipulag og þar er útivistarsvæði, það eru svo mikil lífsgæði.
Þetta er forsendubrestur. Við kjósum að búa við grænt svæði og ala upp börnin okkar í svona umhverfi og þetta er þarna í skipulagi sem útivistarsvæði.“
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins deildi myndskeiði frá framtaki Grafarvogsbúa á facebook og hefur færslan vakið mikla athygli. Yfir 1.600 manns hafa líkað við færsluna og myndskeiðið hefur fengið yfir 134 þúsund áhorf.
„Borgin neitar að slá þetta útivistarsvæði sem síðast var barist fyrir að halda fyrir 20 árum.
Hér er ekki gefist upp. Lifi Græna Byltingin,“ skrifar Guðlaugur Þór.