Feðginin sem fundust látin á Edition-hótelinu í Reykjavík þann 14. júní og konan sem grunuð er um að hafa banað þeim eiga að hafa sent erfðaskrár til fjölskyldu mannsins við komu þeirra til Íslands.
RÚV greindi fyrst frá.
Fjölskyldan var búsett á Írlandi, en maðurinn er sagður vera frá Nýju-Kaledóníu sem er eyja undir yfirráðum Frakka í Kyrrahafi. Erfðaskrárnar voru stílaðar á skyldmenni hans þar í landi og eru eignirnar sem útlistaðar eru í erfðaskránum sagðar nema tæpum milljarði króna.
Þá er einnig talið tvö eggvopn hafi verið notuð til að framkvæma morðin og að þau hafi verið hluti af farangri fólksins.