Heimaskóli í viðkomandi hverfi barns kemur til með að sinna kennslu barna sem eru á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) meðan á lögbundinni skólaskyldu þeirra stendur. Þetta segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar í samtali við Morgunblaðið.
Brúarskóli við Dalbraut hefur annast sjúkrakennslu barna á meðan þau eru á BUGL en líkt og greint var frá í blaðinu á mánudag ákvað Reykjavíkurborg að loka starfsstöð skólans við Dalbraut. Landspítali vissi ekki af lokuninni fyrr en á föstudaginn í síðustu viku.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hafði enga aðkomu að ákvörðun borgarinnar um lokunina en ráðuneytið hafði þó fundað um stöðu nemenda á framhaldsskólaaldri á BUGL. Ráðuneytið stefndi að því að fara betur yfir málið að loknu sumarleyfi. Þetta kom fram í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is í gær.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir segir í samtali við Morgunblaðið að þessar breytingar séu hluti af þróun borgarinnar þess efnis að heimaskólar barna á BUGL sinni sjúkrakennslu, eins og kveðið sé á um í grunnskólalögum. Hún segir breytingarnar enn vera í vinnslu hjá borginni.
Samkvæmt úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið KPMG vann fyrir borgina árið 2023 var meðalnámstími nemenda á Dalbraut 3-4 vikur. Ein af ástæðunum fyrir því að ákveðið var að færa kennsluna frá Brúarskóla yfir í heimaskóla barnanna var að með því væri börnunum haldið í sínu daglega umhverfi og þau ekki tekin úr þeirri kennslu sem þau hefðu fengið.
Öruggar heimildir Morgunblaðsins herma að uppsagnir starfsmannanna, sem voru tveir, hafi verið dregnar til baka á mánudaginn. Eftir því sem blaðið kemst næst eru þeir því ennþá starfsmenn Reykjavíkurborgar.
Ólafur Björnsson skólastjóri Brúarskóla segir í samtali við Morgunblaðið að engum hafi verið sagt upp en um ákveðnar skipulagsbreytingar sé að ræða. Ólafur gat ekki tjáð sig um hvort breytingar yrðu á störfum kennara starfsstöðvarinnar.
Borgin vildi ekki kannast við uppsagnirnar og sagði Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, að um misskilning væri að ræða.
Ekki er vitað hvernig fyrirkomulag skólaþjónustu á BUGL verður í haust en borgin ítrekar að þjónustan verði ekki rofin. Borgin muni áfram sinna þjónustu við börn í öðrum sveitarfélögum en ekki einungis reykvískum börnum eins og Eva hélt fram í frétt blaðsins á mánudag.
Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, hefur ekki viljað tjá sig um málið við Morgunblaðið síðustu daga.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.