Þingfundur á Alþingi hófst í dag á því að minnst var látins fyrrverandi alþingismanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, hóf þingfundinn á því að flytja minningarorð um Magnús og í kjölfarið risu þingmenn upp úr sætum.
Magnús Þór lést síðastliðinn mánudag, 30. júní, þegar strandveiðibátur hans, Ormurinn langi AK-64, fórst undir Blakknum við mynni Patreksfjarðar.
Magnús var þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi á árunum 2003-2007 og formaður þingflokks lengst af þann tíma. Á Alþingi og í þjóðmálaumræðunni almennt lét Magnús mjög til sín taka í sjávarútvegsmálum, bæði í ræðu og riti.
Á síðari árum starfaði Magnús fyrir Flokk fólksins um skeið.