Nyrsti hluti útsýnispallsins við Dettifoss er enn lokaður eftir að stór aurskriða féll úr klettabrúnum Jökulsárgljúfra við útsýnispallinn rétt norðan við fossinn í upphafi júnímánaðar. Leiðinni niður í fosshvamminn var einnig lokað og verður áfram.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær útsýnispallurinn eða leiðin í fosshvamminn verða opnuð á ný en ákveðið var að loka þessum leiðum í öryggisskyni.
Guðrún Jónsdóttir, þjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, segir í samtali við Morgunblaðið að leiðin niður í fosshvamminn liggi um eitt ótryggasta svæðið um þessar mundir og því sé ekki hægt að hleypa fólki þangað niður.
„Öryggi gesta okkar er í fyrirrúmi hjá okkur. Við fylgjumst alltaf með og bregðumst við,“ segir Guðrún.
Aurskriðan sem féll í júní var utan stíga en sambærileg aurskriða féll á svipuðum slóðum fyrir rúmlega tveimur áratugum.
Guðrún segir að í kjölfar aurskriðunnar hafi sérfræðingar á Veðurstofu Íslands verið fengnir til að vinna skýrslu um svæðið. Sérfræðingarnir skiluðu nýlega af sér skýrslunni og eru starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs byrjaðir að vinna úr niðurstöðum hennar.
Guðrún segir að brugðist verði við sem fyrst en vanda þurfi til verka.
„Þetta var góð og metnaðarfull skýrsla með fullt af ábendingum en við þurfum að vinna úr henni áður en við tökum næstu skref,“ segir Guðrún. Hún segir ekki tímabært að ræða mögulegar aðgerðir fyrr en lokaákvörðun hafi verið tekin.
Eftir að aurskriðan féll í júní kom í ljós að sárið í sprungunni reyndist óstöðugt auk þess sem aðrar sprungur komu í ljós á svæðinu sem ekki var vitað um.
Bendir Guðrún á að þrátt fyrir lokun á tveimur svæðum við Dettifoss sé enn hægt að gera sér ferð að fossinum og njóta útsýnisins en fólk er beðið að sýna aðgát.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.