Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur segir að í vel ígrunduðu máli sjái flestir að sterkasta tilhneiging foreldra verður alltaf að vernda börnin sín. Þetta segir hún í samtali við mbl.is í sambandi við áform dómsmálaráðherra um breytingar á almennum hegningarlögum sem varða tálmun lögreglurannsókna þegar náinn vandamaður á í hlut.
„Það þarf að gæta þess að breytingar á lögum rýri ekki réttindi fólks af því að í núverandi lögum felst svona ákveðin viðurkenning á því að fólk hafi tilhneigingu til að vernda sína nánustu, börn, maka og foreldra,“ segir Margrét.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir það grafalvarlegt þegar fólk tálmar sakamálarannsókn, hvort sem um náinn ættingja er að ræða eða aðra og að það sé tímabært að endurskoða þessi mál. Hún segist vænta þess að kynna frumvarp þar að lútandi á næsta haustþingi en hún hefur kynnt áform þess efnis í samráðsgátt. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Nýlega kom upp slíkt mál þar sem foreldrar sextán ára drengs, sem varð ungri stúlku að bana á Menningarnótt, reyndu að fela sönnunargögn með því að segja honum að fara í sturtu og setja föt hans í þvott. Einnig þrifu þau árásarhnífinn og komu honum fyrir í bíl.
Margrét segir að í réttarkerfum eiginlega allra landa sé ákveðin viðurkenning á því að fólk eigi til dæmis ekki að þurfa að bera vitni gegn nánum aðstandendum. „Mér finnst þetta mikilvæg vernd í lýðræðislegum réttarríkjum.“
„Það sem ég myndi segja miðað við þessar upplýsingar sem fram koma í þessu áformaskjali sem er núna í samráðsgáttinni er að það þyrfti að stíga varlega til jarðar og gæta þess að það verði til dæmis ekki refsivert að þvo föt barna sinna eða neita að svara ákveðnum spurningum lögreglu um sína nánustu,“ segir Margrét.
Hún segir það alvarlegt að segja ósatt eða fela gögn og aðrar aðgerðir sem tefja eða torvelda lögreglurannsókn vera í sjálfu sér mjög alvarlegt og að það sé mjög alvarlegt að koma í veg fyrir það að sakamál séu upplýst og þá um leið að auka hættuna á að réttvísi nái ekki fram að ganga.
„Í því ljósi er auðvitað eðlilegt að endurskoða gildandi lagaákvæði og athuga hvort að skilyrðislaus refsileysi eigi alltaf við eða hvort það þurfi að gera undantekningar. Það verður þess vegna bara spennandi að sjá, ef það verður lagt fram frumvarp um breytingar, hvernig það mun nákvæmlega líta út.“
Margrét segir það skýrt að dómsmálaráðherra hafi sýnt mikinn vilja til að bregðast hratt við málum sem koma svona upp í opinberri umræðu og telur hún það geta verið til góðs, sérstaklega ef að löggjafinn grípur inn í til að bæta úrelt lög.
„Það er hins vegar líka mikilvægt að lagasetning byggi á heildstæðri greiningu og vönduðum rökum en ekki eingöngu á einstökum atvikum sem vekja sterk viðbrögð í fjölmiðlum því annars er hætta á því að þetta verði tilfinningadrifið og að einhverju leyti popúlískt.“
„Þú hræðir ekki foreldra með hótun um slíka refsingu og þá þurfa lögin okkar að taka mið af því hver mannlegt eðli er, og mannlegt eðli er bara að vernda sína nánustu.“