Vegagerðin er í óða önn að meta hvernig ljósið frá Gjögurtá skuli vera í framtíðinni fyrir sjófarendur.
„Við erum á fullu að meta, bæði þörfina fyrir hvernig ljósið þarf að vera, lengdina á ljósinu út á haf og umfangið, til að geta áttað okkur á því hvort við getum fært staðsetninguna á því,” segir Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.
Hrunið hefur úr undirstöðum vitans á Gjögurtá, nyrst við austanverðan Eyjafjörð, og er töluverð hætta á að hann falli fram af klettum og ofan í sjóinn. Ljósið úr vitanum virkar ekki eins og það á að gera, enda hefur stefna þess breyst sökum þess að vitinn hallar.
Aðspurð segir Bergþóra ýmsa útreikninga vera í gangi. Einn möguleiki er að hærra mastur verði sett neðar í hlíðina til að passa að ljósið sé í sömu hæð og verið hefur. Annar möguleiki er að annar viti verði settur upp á svæðinu. Ekki kemur til greina að færa þann sem fyrir er eða að hafa ekkert ljós á svæðinu.
„Þetta eru vægast sagt snúnar aðstæður,” bætir Bergþóra við og segir að allar leiðir verði skoðaðar til að tryggja öryggi.
„Það verður erfitt að athafna sig þarna og flókið og dýrt að koma aðföngum og hlutum þarna að. Við munum vanda okkur í því að skoða hvaða lausnir koma til greina.”
Hún segir óljóst með kostnað verkefnisins.
Landhelgisgæslan hefur hingað til aðstoðað Vegagerðina við að komast á Gjögurtá á bátum. Ef flytja þarf byggingarefni eða mastur á þennan afskekkta stað telur Bergþóra líklegt að notast þurfi við þyrlu.
Gjögurtáarviti er einn af vitum Vegagerðarinnar sem eru algjörlega sjálfvirkir. Þeir eru rafvæddir með sólarorku og rafhlöðum.
Bergþóra segir vitann geta hrunið hvenær sem er. „Við vonum að það gerist ekki en við verðum að vera viðbúin hinu versta,” segir hún. Þess vegna þurfi að koma upp öðru ljósi sem fyrst og er Vegagerðin því í kappi við tímann.
Spurð hvort hætta verði á ferðum fyrir sjófarendur ef vitinn hrynur áður en nýtt ljós hefur verið útbúið segir hún flest skip í dag sigla eftir leiðsögutækjum. Þau geti þó dottið út eða bilað.
„Það gerist alveg og hefur alveg gerst. Í dag er þetta orðið varaöryggi en gríðarlega mikilvægt að það virki og sé til staðar,” segir hún.