Opinber norskur legsteinn verður lagður í dag á leiði norska sjóliðans Sigurds Arvids Nilsens í kirkjugarðinum á Flateyri að viðstöddum ættingjum hans sem fengu formlega tilkynningu frá norskum stjórnvöldum um afdrif Sigurds á síðasta ári.
Sigurd Arvid Nilsen var 23 ára loftvarnarskytta á norska flutningaskipinu DS Fanefjeld sem sigldi til Íslands með saltfarm í mars árið 1942. Skipið hélt frá Reykjavík til Bíldudals í byrjun apríl og losaði salt og fór þaðan 8. apríl áleiðis til Ísafjarðar. En þangað kom skipið aldrei og sannað þykir að þýski kafbáturinn U-252 hafi grandað því með tundurskeyti undan Vestfjörðum.
Að morgni föstudagsins 10. apríl sigldi vélbáturinn Ingólfur Arnarson ÍS 501 frá Flateyri fram á lík í sjónum. Líkið var íklætt norskum einkennisbúningi og í bjarghring, sem merktur var FANEFJ… Siglt var með líkið til Flateyrar og það jarðsett í kirkjugarðinum þar 17. apríl.
Legstaðurinn var helgaður minningu óþekkta sjómannsins og hafa blóm síðan jafnan verið lögð á leiðið á sjómannadaginn. En á síðasta ári staðfesti norska menningar- og jafnréttisráðuneytið að sjómaðurinn væri Sigurd Arvid Nilsen og tilkynnti ættingjum hans það með formlegum hætti.
Odd-Arne Berg-Hanssen, systursonur Sigurds, sagði við Morgunblaðið á síðasta ári að fjölskyldan hefði verið mjög undrandi en jafnframt glöð að fá loks svar við þeim spurningum sem hefðu lengi leitað á hana.
Norski sjóherinn hefur skipulagt athöfnina í Flateyrarkirkjugarði, sem hefst kl. 15.30 í dag, í samvinnu við norsku stríðsgrafaþjónustuna og sendiráð Noregs. gummi@mbl.is
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.