Tilteknir atburðir móta sögu þjóða með meira afgerandi hætti en aðrir. Á síðari árum hefur flest miðast við tímann fyrir og eftir hrun. Uppgjörið vegna þess stendur enn yfir. Hvað varðar mestu þar?
Með ákveðnum rökum má halda því fram að þar sé það Icesave-málið svokallaða sem leitt var til lykta fyrir EFTA-dómstólnum árið 2013. Önnur rök hníga að því að nefna samkomulagið við kröfuhafana sem náðist árið 2015 eða fyrir sléttum áratug síðan.
Kannski má færa rök fyrir því að þessir tveir risastóru atburðir séu innbyrðis tengdir.
Á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála verður fjallað um bókina Afnám haftanna: Samningar aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson nú í júlímánuði.
Þar fjallar blaðamaðurinn um einmitt það sem titill bókarinnar vísar til. Þar voru á ferðinni aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem miðuðu að því að losa um fjármagnshöft íslenska hagkerfisins og endurræsa hagkerfi sem allt frá árslokum 2008 var undir járnhæl opinberrar íhlutunar og hafta sem komu í veg fyrir hagvöxt og eðlilegan viðgang samfélagsins.
Bókin er sú fjórða í röðinni sem fjallað er um á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála og tilefnið er það að í nýliðnum mánuði voru tíu ár liðin frá því að hinir tröllauknu samningar náðust.
Bókin er á sérstöku tilboðsverði í verslunum Pennans að þessu tilefni.
Bókaklúbbur Spursmála hefur hlotið fádæma góðar viðtökur en hægt er að skrá sig til leiks án endurgjalds og fylgja því ýmis fríðindi. Meðal annars aðgangur að viðburðum á vettvangi klúbbsins en þeir hafa verið vel sóttir.
Hér er hægt að skrá sig í Bókaklúbb Spursmála.
Ástæða er til þess að vekja athygli á viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, en hann var gestur Spursmála um daginn og ræddi þessa atburði þar.
Viðtalið er aðgengilegt í spilaranum hér að neðan: