Karpið um frumvarp atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalda heldur áfram á Alþingi inn í sumarið og er hitinn í húsinu talsvert meiri en úti á Austurvelli, þar sem flestir hrista hausinn yfir ástandinu.
Flestir sjálfsagt með hugann annars staðar, eins og raunar atvinnuvegaráðherrann Hanna Katrín Friðriksson, sem fór frekar með fjölskyldunni í golf en að koma í þingið.
Samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglok virðist hins vegar fjarlægara en nokkru sinni, þótt bæði ráðherrar og leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi uppi góð orð um ríkan samningsvilja beggja aðila.
Formenn þingflokka hafa vissulega átt marga fundi og jafnvel langa um hvernig haga megi dagskrá Alþingis til þess að unnt sé að binda enda á þetta langa þing, en ekki náð samkomulagi.
Eins og fram hefur komið í orðum bæði ráðherra og þingmanna þokaðist talsvert í samkomulagsátt um liðna helgi, en eftir því sem næst verður komist náðu menn saman um afgreiðslu flestra mála sem ríkisstjórnin leggur mesta áherslu á.
Ekki þó veiðigjaldafrumvarpið. Um það er enn allt stál í stál, enda um grundvallarágreining að ræða. Samkvæmt heimildum blaðsins vill ríkisstjórnin ekki hnika neinu til um það, hvað sem öllum aðfinnslum um aðferð og útreikninga líður. Og á því mun hafa brotnað um helgina.
Á mánudag og þriðjudag mun þó hafa verið látið í ljós við stjórnarandstöðuna að til skoðunar væri að nálgast málið á einhvern þann hátt, sem sefað gæti helstu áhyggjur. Ekkert liggur fyrir um hvað það hefði getað verið, en giskað á að það gæti verið einhvers konar aðlögun, t.d. að hækkunin kæmi fram í 2-3 þrepum frekar en öll í einu, eða að sett yrði þak á hækkun hvers fyrirtækis, þak á veiðigjöld sem hlutfall af afkomu eða eitthvað ámóta.
Þegar til átti að taka var þó ekkert slíkt í boði, stjórnarflokkarnir eru sagðir hafa setið fastir við sinn keip um öldungis óbreytt frumvarp. Samningsviljinn kann því að hafa verið fyrir hendi í þingliði stjórnarinnar, en svo virðist sem ríkisstjórnin hafi hafnað slíkum lausnum.
Og þar við situr.
Þess vegna heldur 2. umræða málsins áfram í þingsal, þar sem stjórnarandstaðan ein tíundar ófáar aðfinnslur sínar.
Stjórnarþingmenn taka ekki þátt í þeirri umræðu, en hafa hins vegar tjáð sig í öðrum umræðum, til dæmis um þá dagskrártillögu stjórnarandstöðunnar að öðrum málum yrði hleypt á dagskrá, svo að eitthvað gengi undan þinginu.
Hún var kolfelld af stjórnarþingmönnum, en þeir létu í ljós áköf vonbrigði með að stjórnarandstaðan reyndi þannig að hrifsa til sín dagskrárvaldið á Alþingi. Sem hún auðvitað gat ekki, eins og kom fram í atkvæðagreiðslunni.
Sem stendur bendir því ekkert til þess að úr rætist. Við svo búið verður þó ljóslega ekki að eilífu unað, en á meðan bíða ýmis brýn mál, svo sem fjármálaáætlun.
Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar sagði við Morgunblaðið í gær að auðvitað væru samningar æskilegastir, en að hann gæti ekki útilokað beitingu „kjarnorkuákvæðisins“ svonefnda, 71. gr. þingskapa, sem heimilar að endi sé bundinn á umræðu og gengið til atkvæða.
Viðbúið er að þá þurfi að grípa til þess við öll mál, sem á eftir fylgja, ef stjórnarandstaðan kýs að ræða þau í þaula. Það væri grafalvarlegt mál, því að þá væri í raun verið að setja Alþingi til hliðar og pólitískt þrátefli orðið að stjórnskipunarlegri kreppu.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.