Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings Ytra, segir bæinn ekki ætla að hætta fyrr en að lágvöruverðsverslun verði komið fyrir í bænum. „Þetta er bara mesta hagsmunamál íbúa Hellu eins og staðan er í dag,“ segir Eggert í samtali við mbl.is.
„Við erum á undanförnum mánuðum búin að vera í samtali við aðila og höfum verið mjög áfram um það að fá lágvöruverslun á staðinn og ákváðum að fara í skipulagsvinnu og skipuleggja lóð undir slíka verslun svo við þyrftum ekki að fara í allt skipulagsferlið þegar okkur tekst að fá einhvern til að opna svona verslun á staðnum, við vildum bara vera einu skrefi á undan.“
Svohljóðandi tillaga var samþykkt á fundi byggðarráðs Rangárþings Ytra þann 25. júní að frumkvæði Á-listans
Eggert segir skipulagsnefndina búna að taka málið fyrir og að tveir til þrír staðir komi til greina, þetta verði svo unnið núna þannig að þegar einverjir eru tilbúnir að opna verslun verði þetta klárt.
Hann segir þau einnig sannfærð um að það sé rekstrargrundvöllur fyrir slíkri verslun í bænum og hvetur þá aðila sem reka þessar verslanir að skoða þennan möguleika mjög vel og þau bíði eftir því hver verði sá fyrsti til að bíta á öngulinn.
Samkeppniseftirlitið leiðrétti á dögunum misskilning sem hljóðaði svo að fyrirtækið Festi, sem rekur verslanir undir nafni Krónunnar, megi ekki opna verslun á Hellu á meðan í gildi er samningur Festis við Samkeppniseftirlitið varðandi samruna N1 og Festis sem átti sér stað 2018.
Ekkert í þeirri sátt kemur í veg fyrir að Festi megi opna lágvöruverðsverslun á Hellu. Festi skuldbatt sig einungis til þess að kaupa ekki eða leigja sama húsnæði í tíu ár frá sölu á verslun Kjarvals sem átti sér stað í kjölfar samruna N1 og Krónunnar. Festir getur því opnað lágvöruverslun í hvaða öðru hentugu húsnæði á svæðinu.