Danskompaní frá Reykjanesbæ tryggð sér heimsmeistaratitil í dansi á dögunum. Um var að ræða danshóp sem keppir í svokölluðum „showstopper“-dansi. Raunar hefur Danskompaní sópað að sér verðlaunum á mótinu en þau unnu silfurverðlaun í „commercial“-dansi í gær og bronsverðlaun í „song and dance“, eða söngva- og dansflokki, í dag. Í þeim flokki er bæði sungið og dansað á sviði.
Helga Ásta Ólafsdóttir, skólastjóri Danskompaní, var á miðju móti þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni og var hún að bíða eftir því að nemandi hennar stigi á svið.
„Við erum einmitt með atriði núna að fara á svið bara eftir 5-10 mínútur í song and dance flokki og sá nemandi vann dómaraverðlaun í forkeppninni heima og skólastyrk erlendis þannig að það verður gaman að sjá hvernig hann plummar sig,“ segir hún.
Á mótinu er keppt í helstu tegundum listdansins og er til að mynda keppt í jazzballet, „showstopper“-dansi, „streetdans“, „song and dance“, „commercial“ og „lyrical“.
Um 120.000 dansarar taka þátt í forkeppnum út um allan heim og á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir taka um 8.000 dansarar þátt í Borgos á Spáni.
Frá Danskompaní eru 56 dansarar að taka þátt á mótinu og sagðist Helga halda að íslensku dansararnir væru í heild um 150-200 talsins.
Um er að ræða tíu daga keppni og einungis þrír eru liðnir.
„Við erum með á bilinu 3-5 atriði á dag,“ segir Helga. „Það er brjálað að gera en það er svo gaman,“ segir hún.
Hún segir stemninguna á keppninni vera góða. „Þetta er bara fjör og stemning og ótrúlega skemmtilegt og fallegt að fá að taka þátt í,“ segir hún.
Danskompaní hefur tekið þátt frá árinu 2019 og hefur unnið 21 heimsmeistaratitil frá árinu 2022.
Helga segir það miður hversu lítið hefur farið fyrir þessari tegund af dansi. „Af því að við Ísland stöndum svo sterk í þessari keppni að þá er svo sorglegt að við fáum ekki meiri umfjöllun,“ segir Helga.