Enginn hefur verið handtekinn vegna stunguárásarinnar sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur í gær.
Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglustöð 1, að sögn Árna Friðleifssonar aðalvarðstjóra, í samtali við mbl.is.
Fórnarlamb árásarinnar er á batavegi eftir að saumað var fyrir sárið og segir Árni stunguna hafa verið minni háttar miðað við aðstæður.
Ekki liggur fyrir hvort lýst verði opinberlega eftir þeim sem grunaðir eru um verknaðinn, en Árni segir málið vera í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar.
Greint var frá því í gær að lögregla, ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, hefði verið með mikinn viðbúnað í miðborginni vegna árásarinnar. Þrír menn veittust að einum manni og stungu hann í aftanvert lærið.
Leit stendur enn yfir að árásarmönnunum þremur.