Þrír karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir innflutning á þremur kílóum af kókaíni til landsins frá Spáni, en efnin höfðu verið falin í þremur pottum og flutti elsti maðurinn þau hingað til lands með Norrænu í apríl.
Samkvæmt ákæru málsins voru mennirnir handteknir sunnudaginn 13. apríl þegar lögregla stöðvaði bifreið þeirra á Kjalarnesi þar sem þeir voru á leið upp á Akranes. Þar höfðu þeir áformað að fjarlægja fíkniefnin úr pottunum og undirbúa söludreifingu þeirra.
Fram kemur að elsti maðurinn, sem er ríkisborgari á Spáni, hafi flutt efnin með Norrænu og komið til Seyðisfjarðar miðvikudaginn 9. apríl. Tók hann rútu til Reykjavíkur þar sem hann hitti yngsta manninn sem er búsettur hér á landi.
Áður hafði þriðji maðurinn, sem er ríkisborgari Dóminíska lýðveldisins, keypt efnin og afhent elsta manninum þau á Spáni. Jafnframt leiðbeindi hann elsta manninum um ferðatilhögun og lagði út fyrir ferðakostnaði og samdi um greiðslur fyrir flutninginn. Sjálfur flaug þessi þriðji maður til landsins aðfaranótt sunnudagsins 13. apríl.
Yngsti maðurinn, sem búsettur er hér á landi, sótti bæði þann sem kom með flugi og þann sem flutti efnin á sunnudeginum og kom jafnframt við í heimahúsi í Seljahverfinu í Reykjavík til að sækja vog og smelluláspoka.
Voru þeir sem fyrr segir á leið upp á Akranes þar sem þeir höfðu pantað gistingu á gistiheimili og ætluðu þar að fjarlægja efnin úr pottunum, vigta þau og koma í söludreifingu.
Jafnframt fundust á mönnunum fjármunir í evrum sem óskað er eftir að verði gerðir upptækir.
Efnin sem fundust á mönnunum voru með styrkleikanum 78-80%. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.