Stofnun Leifs Eiríkssonar hefur veitt ellefu styrki að verðmæti meira en 250 þúsund dollara fyrir nám og rannsóknir í meistara- og doktorsnámi í Bandaríkjunum og á Íslandi skólaárið 2025-2026 en það jafngildir um 30 milljónum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni en þar segir að styrkirnir, sem veittir eru úr 7,6 milljóna dollara sjóði stofnunarinnar, sem jafngildir rúmlega 850 íslenskum krónum, styðji íslenska nemendur í framhaldsnámi eða rannsóknum í Bandaríkjunum og bandaríska framhaldsnema við nám eða rannsóknir á Íslandi. Styrkirnir standa nemendum úr öllum fræðigreinum til boða.
Sjö íslenskir nemendur hljóta styrk að þessu sinni en þeir eru Bergsveinn Ólafsson sem stundar doktorsnám í jákvæðri vinnusálfræði við Claremont Graduate University, Kristrún Ragnarsdóttir sem mun stunda nám til LLM-gráðu við University of California og Peter Dalmay sem mun sömuleiðis stunda nám til LLM-gráðu við University of California. Svala Sverrisdóttir fær einnig styrk en hún stundar doktorsnám í stærðfræði við sama skóla.
Þá hljóta einnig styrk Tjörvi Schiöth sem er í doktorsnámi við HÍ og mun stunda rannsóknir á sögu kalda stríðsins í skjalasöfnum sem gestarannsakandi við American University og School of Advanced Studies við John's Hopkins University, Veronika Guðmundsdóttir Jonsson sem mun stunda doktorsnám í stjórnmálafræði við Graduate Center of the City University of New York og Þorsteinn Kristinsson sem er í doktorsnámi í flugvélaverkfræði við Univerity of Colorado Boulder.
Loks hljóta fjórir bandarískir nemendur styrk til að stunda nám á Íslandi en þeir eru Mira Begg sem mun læra í HR, Cameron Essex og Mia Schawartz sem munu sækja HÍ og Alex Zinck sem er í meistaranámi í Háskólanum á Hólum.
Stofnun Leifs Eiríkssonar, sem var komið á fót árið 2001 og er í höndum stjórnar, tilnefndri af Seðlabanka Íslands, ríkisstjórn Íslands og University of Virginia, var stofnuð í þeim tilgangi að veita viðurkenningu og fjárhagsaðstoð við eflingu fræðimennsku og fræðilegra rannsókna með nemendaskiptum milli Íslands og Bandaríkjanna.