Kafbáturinn USS Newport News er áttundi kjarnorkuknúni kafbáturinn sem kemur í þjónustuheimsókn til Íslands, sem nú fer fram í höfn á Grundartanga en fram til þessa hafa heimsóknirnar farið fram úti fyrir ströndum landsins innan íslensku landhelginnar.
Ljósmyndari mbl.is var á vettvangi í morgun þegar kafbáturinn kom inn í Hvalfjörð.
Kafbáturinn er af Los Angeles-gerð og eru 130 í áhöfn. Kafbáturinn ber ekki kjarnavopn.
Þjónustuheimsókninar byggja á ákvörðun utanríkisráðherra frá 18. apríl árið 2023 um að kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins verði heimilt að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út áhöfn.
Útfærslur frekari þjónustuheimsókna liggja ekki fyrir að svo stöddu en með því að framkvæma þjónustuheimsóknir af þessu tagi í höfn er betur hægt að huga að öryggi og umgjörð heimsóknanna.
Kafbátar sömu gerðar hafa reglulega viðkomu í höfnum flestra bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal um margra áratuga skeið í höfnum Noregs og nú nýverið í Færeyjum.
Sérstakar og ítarlegar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar í nánu samstarfi við Geislavarnir ríkisins, Landhelgigæsluna, Ríkislögreglustjóra, Almannavarnir og embætti sóttvarnalæknis til að tryggja örugga móttöku kafbátsins.
Heimsóknin er liður í öflugu varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, nú með auknum gistiríkjastuðningi af hálfu íslenskra stjórnvalda til Atlantshafsbandalagsins og helsta samstarfsríkis Íslands í varnarmálum. Jafnframt undirstrikar heimsóknin mikilvægi Íslands sem gistiríkis og samstarfsaðila bandaríska sjóhersins á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.
Virkt eftirlit sem kafbátar bandaríska sjóhersins sinna á hafsvæðinu í kringum Ísland er mikilvægt fyrir varnir Atlantshafsbandalagsins og tryggir betri stöðuvitund, takmarkar svigrúm óvinveittra kafbáta og stuðlar að auknu öryggi neðansjávarinnviða á borð við sæstrengi.
Heimsóknin er liður í stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi, og sýnir að Ísland er traustur bandamaður sem leggur sitt af mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins.