Tómas G. Gíslason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, vísar á bug öllum ásökunum um að starfsfólk hans starfi af óheilindum og segir ásakanir, um að starfsmenn eftirlitsins vinni vísvitandi gegn rekstraraðilum, fráleitar. Þá segir hann einnig tafir við leyfisveitingar stundum vera rekjanlegar til seinagangs rekstraraðila fremur en eftirlitsins.
Honum þykir þó miður að svo margir veitingamenn skuli lýsa yfir óánægju með starfsemi eftirlitsins, en í nýrri könnun sem Samtök fyrirtækja í veitingaþjónustu framkvæmdu nú á dögunum lýstu veitingamenn yfir mikill ónægju vegna starfa og viðmóts eftirlitsins í þeirra garð.
Um 74% veitingamanna í Reykjavík sögðust ónægðir með viðmót heilbrigðiseftirlitsins og tæp 63% kvörtuðu sömuleiðis yfir þjónustu eftirlitsins. Þá sögðust 60% bera lítið eða mjög lítið traust til stofnunarinnar.
Tómas tekur aukinni umræðu fagnandi en hann segir að til skoðunar sé nú hvernig megi bæta úr samskiptum og upplifun veitingamanna af störfum eftirlitsins.
Hann bendir á að Heilbrigðiseftirlitinu sé í störfum sínum markaðar afar þröngar skorður, en það vinni enda eftir strangri og flókinni löggjöf sem oftast sé orsök þess seinagangs við leyfisveitingar, sem ratað hefur í fréttir.
„Í umræðunni hafa verið mál þar sem m.a. hefur verið fjallað um langa bið eftir tilskyldum starfsleyfum. Staðreyndin er sú að afgreiðsla starfsleyfa tekur yfirleitt aðeins nokkra daga, en það sem veldur töfunum er ef viðkomandi rekstraraðili sendir ekki allar nauðsynlegar upplýsingar sem þurfa að fylgja með lögum samkvæmt, þ.m.t. staðfestingu byggingarfulltrúa,” segir Tómas.
Því sé ekki endilega aðeins við Heilbrigðiseftirlitið að sakast, heldur sé vandinn einnig fólginn í umsóknarferlinu.
Bendir hann í því samhengi á tilfellum líkt og við opnun kaffihúsakeðjunnar Starbucks sem tafðist verulega fyrir rúmum mánuði, en það hafi verið vegna þess að lögum samkvæmt þurfi Heilbrigðiseftirlitið að auglýsa starfsleyfið í fjórar vikur til að gefa almenningi kost á að gera athugasemdir við útgáfu þess.
„Eðlileg hefur þetta valdið miklum leiðindum, en við óskuðum eftir leiðbeiningum frá umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytinu og svörin voru skýr að það þyrfti að auglýsa útgáfu þessara leyfa.”
„Í kjölfarið settu veitingaaðilar sig í samband við ráðuneytið og nú er því búið að breyta reglugerðinni svo það þarf ekki að auglýsa starfsleyfi veitingahúsa í fjórar vikur líkt og áður.” segir Tómas.
Hann segir fleiri dæmi vera um íþyngjandi ákvæði líkt og þetta, en Tómas telur mikilvægt Heilbrigðiseftirlitið geti fetað milliveginn og starfað í sátt og samlyndi við veitingamenn, án þess þó að slá af kröfum sínum sem eftirlitsaðili.
Hann segist þegar hafa fundað með Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði og að sá fundur hafi verið afar árangursríkur og að ríkur vilji sé til samstarfs milli beggja aðila.