Borið hefur á því að ungmenni ákveði að skipta snjallsímum sínum út fyrir takkasíma, og náði mbl.is tali af tveimur þeirra. Þau segja bætta líðan hafa fylgt ákvörðuninni, en að lífstíllinn sé þó ekki án vandkvæða.
Krummi Morthens, 19 ára nemandi við Myndlistarskólann í Reykjavík, segir vilja til þess að taka stjórn á eigin lífi hafa legið að baki ákvörðun hans um að skipta snjallsímanum út fyrir einfaldara tæki.
„Það er búin að vera mikil umræða í þjóðfélaginu lengi um að símarnir séu að rústa lífi okkar og mér fannst sú umræða alltaf áhugaverð. Svo voru nokkrir vinir mínir komnir með takkasíma, og það virtist reynast þeim vel,“ segir hann.
Síðasta hálmstráið hafi verið þegar hann áttaði sig á því að hann væri orðinn háður leik í símanum sínum.
„Ég hugsaði bara: Þetta er að drepa lífið mitt. Þetta tæki er að kæfa hjá mér lífsviljann. Svo ég ákvað að skipta því út fyrir takkasíma sem getur ekki haft þessa stjórn á mér.“
Þórunn Finnsdóttir, 18 ára nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, segist hafa fundið til aukins frelsis eftir að hún lét snjallsímann lönd og leið.
„Ég var farin að vera á samfélagsmiðlum út í eitt, marga klukkutíma á dag, og ég var komin með ógeð á því.“
Henni hafi þótt nánast hallærislegt að verja svona miklum tíma í símanum – það hafi ekki þjónað neinum tilgangi.
„Þegar síminn minn bilaði í ágúst á síðasta ári og verðmunurinn á nýjum snjallsíma og takkasíma voru rúmar 200.000 krónur ákvað ég að slá til og prófa takkasímann,“ segir hún.
Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri raftækjavöruverslunarinnar Elko, segist ekki geta staðfest að um eiginlegan tískustraum sé að ræða, en að smávægilegrar söluaukningar hafi þó gætt í takkasímasölu hjá fyrirtækinu.
Hann segir erfitt að aldursgreina kaupendahópinn, en hann gruni að til dæmis ákveði foreldrar í auknum mæli að fyrsti sími barnanna sinna verði takkasími.
Umræðan um neikvæð áhrif símanotkunar hefur að miklu leyti beinst að snjallsímanotkun barna og unglinga, og hafa margir grunnskólar gripið til þess ráðs að banna símanotkun.
Krummi og Þórunn segjast bæði hafa fundið fyrir jákvæðum breytingum á eigin líðan eftir að þau kvöddu snjallsímann en sammælast um að það sé flókið að lifa í stafrænum heimi nútímans án hans.
„Ég fór að lifa miklu meira í núinu og hugsa miklu minna um það hvað annað fólk væri að gera; mér fannst eins og ég væri aftur orðin mikilvægasta manneskjan í mínu lífi,“ segir Þórunn og bætir því við að mikið frelsi fylgdi því að vera ekki sítengd á samfélagsmiðlum.
„Ég er farinn að hugsa meira og gera meira,“ segir Krummi og segist einnig taka eftir því að hann lifi meira í núinu.
„Ég horfi í kringum mig og tala við fólkið í kringum mig í stað þess að vera með nefið ofan í símanum – mjög gefandi,“ segir hann.
Þau nota tölvu heima fyrir til þess að sinna vinnu og skóla, en málin flækjast þegar komið sé út fyrir hússins dyr.
„Ég gat ekki borgað í stöðumæli og það var erfitt fyrst um sinn að rata ekki símalaus. Ég hef líka þurft að fá sérþjónustu út af rafrænum skilríkjum í þjónustuverum og þegar þarf að skanna QR-kóða á veitingastöðum,“ segir Þórunn.
„Ég stólaði á símann um mjög margt, og samfélagið stólar líka á að ég eigi síma.“